Umhverfisvæn ráð fyrir baðherbergið
Ýmislegt má gera til að minnka vatnsnotkun, orkunotkun og notkun óumhverfisvænna efna á baðherberginu. Hér eru nokkur góð ráð.
Við sturtum því niður Um það bil 27% af vatnsnotkun hvers heimilis má rekja til klósettsins – því við það að sturta niður notum við meira vatn en fyrir þvottavélina.
Við sturtum því niður
Um það bil 27% af vatnsnotkun hvers heimilis má rekja til klósettsins – því við það að sturta niður notum við meira vatn en fyrir þvottavélina, uppþvottavélina eða sturtuna. Því er mikilvægt að vera með tvöfalda vatnsstillingu á klósettkassanum til að geta minnkað þessa vatnsnotkun.
Stillanlegir sturtuhausar
Hægt er að draga úr því vatnsmagni sem við notum í sturtunni með því að setja upp sturtuhausa sem draga úr vatnsmagninu, án þess að skerða ánægjuna af góðri sturtu. Þeir sem eru virkilega meðvitaðir um að spara vatn skrúfa fyrir sturtuna meðan þeir þvo hár og líkama og skrúfa svo frá henni aftur til að skola sig.
Hreyfiskynjarar
Settu upp hreyfiskynjara við blöndunartækin í vaskinum. Þú sparar ótrúlega mikið vatn á því.
Skiptu um ljósaperur
Ef þú hefur ekki þegar skipt yfir í LED-perur er tilvalið að gera það nú, ekki bara á baðherberginu heldur á öllu heimilinu. Þær spara bæði
orku auk þess sem þær endast mun lengur en gömlu venjulegu ljósaperurnar. Reiknað hefur verið út að ef öll heimili á Íslandi skiptu út tíu 60W glóperum fyrir tíu 11W sparperur myndi orkan sem sparast vera um 60 milljón kílóvött á ári, sem samsvarar heildarrafmagnsnotkun þrettán þúsund heimila.
Orkusparandi vifta
Vifta með orkusparandi merkingum dregur úr rafmagnsnotkun á baðherberginu. Mikilvægt er að láta viftuna ganga á meðan verið er í sturtu eða baði og í um það bil 15 mínútur eftir það til að forðast að upp safnist raki, sem getur leitt til myglu.
Umhverfisvænni efni
Kauptu umhverfisvænt inn í baðherbergið, allt frá handklæðum og þvottastykkjum yfir í sápur, sjampó, hárnæringu, krem og salernispappír. Leitaðu eftir umhverfisvottunarmerkjum eins og “organic”, “certified organic”, “from organic ingredients” eða öðru þess háttar á þessum vörum.
Hreinsað með grænum efnum
Það er hægt að hreinsa baðherbergið með matarsóda og ediki. Dreifðu matarsódanum yfir svæðið sem á að þrífa, helltu smá hvítu ediki yfir og láttu freyða og liggja á svæðinu í fjórar til fimm mínútur. Strjúktu svo yfir með góðum svampi. Hægt er að blanda nokkrum dropum af ilmkjarnaolíum eins og tea tree, lavender, eucalyptus, sítrónugrasi og rósmaríni út í vatn í úðabrúsa. Olíurnar eru bæði bakteríudrepandi og gefa góðan ilm.
Heimildir: fréttablaðið