Draumavaralitur úr vaxlitum barna
|

Draumavaralitur úr vaxlitum barna

Draumavaralitur úr vaxlitum barnaÞað eru eflaust einhverjir sem trúa því ekki en ein besta leiðin til að uppfæra varalitasafnið eða jafnvel bæta við það er að búa til eigin varaliti úr vaxlitum.

Það er mjög einföld og um leið sniðug aðferð til að endurnýta gamla liti sem börnin eru hætt að nota. Þetta hljómar ef til vill eitthvað skringilega í eyrum sumra en í flestum varalitum eru alls kyns aukaefni sem eru ekki í vaxlitum. Þeir eru búnir til fyrir börn og eru eiturefnafríir. Með því að búa til eigin varaliti eru öll innihaldsefni þekkt og auk þess er auðvelt að stjórna því hvaða litur verður til.

Það sem þarf í varalitargerðina er einn vaxlitur (eða blanda af fleirum en þá þarf magnið að jafngilda einum lit), ein teskeið af kókosolíu og lítil krukka með loki. Einnig má bæta í þetta til dæmis glimmeri eða bragðefnum eins og vanillu eða möndlu.

Liturinn og olían eru brædd saman yfir vatnsbaði á vægum hita. Ef glimmer eða bragðefni eru notuð er þeim líka bætt út í. Þegar allt hefur blandast vel saman er litnum hellt í krukkuna og hann látinn kólna.

Svo er hægt að leika sér endalaust með liti og áferð. Ef liturinn er of þurr má blanda meiri olíu við hann og öfugt ef hann er of glansandi. Nú er bara um að gera að leita að gömlu litunum og skella í draumavaralitinn.

Heimildir: fréttablaðið

oli
Author: oli

Vefstjóri