Sólarhringsverkfall Eflingar hófst á miðnætti
Verkfallið í dag verður sambærilegt því sem Efling blés til á þriðjudag. Þá lagði Eflingarfólk í leikskólum, velferðarþjónustu og sorphirðu niður störf frá hádegi til miðnættis.
Rétt eins og á þriðjudag má búast við mestri röskun á starfsemi leikskóla í dag en svo vill til að verkfallið ber upp á degi leikskólans, 6. febrúar.
Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg fellur það oftast í hlut Eflingarfólks að opna og loka leikskólunum og því má gera ráð fyrir skerðingu á opnunartíma „í báða enda.“ Áhrif verkfallsins eru þó mismikil eftir leikskólum og ræðst það af hlutfalli Eflingarfólks í hverjum skóla. Gróflega má ætla að áhrifin verði mest í Breiðholti en minnst í Laugardal, sem skýrist af fleiri sérfræðimenntuðum leikskólakennurum í síðarnefnda hverfinu.
Samtök atvinnulífsins sendu félagsmönnum bréf þar sem atvinnurekendur eru hvattir til að sýna aðstæðum skilning í þeim tilfellum þar sem starfsfólk gæti þurft að vera heima með börnum sínum, sinna öldruðum foreldrum eða öðrum vegna verkfallsins, samkvæmt visir.
{loadposition nánar fréttir}