skolagardar-aflagdir-en-leigdir-fjolskyldum

Skólagarðar aflagðir en leigðir fjölskyldum

„Ástæðan er sparnaður og hagræðing,” segir Gunnar Hersveinn, upplýsingafulltrúi umhverfissviðs borgarinnar. Foreldrar hafa greitt þrjú þúsund krónur fyrir hvern skika sem börn hafa fengið í skólagörðunum. Innifalið í gjaldinu var bæði útsæði og starfsfólk sem aðstoðaði börnin. Að sögn Gunnars var kostnaður borgarinnar af skólagörðunum í fyrra 24 milljónir króna.
Til samanburðar eiga fjölskyldur að greiða 4.200 krónur fyrir sams konar skika sem er tuttugu fermetrar. Það eina sem fylgir er aðgangur að útikrana með köldu vatni. „Gert er ráð fyrir að Fjölskyldugarðar komi út á núllinu,” segir Gunnar.
Að sögn Gunnars dalaði aðsókn í skólagarðana fram til ársins 2007. „Eftir hrunið jókst áhuginn aftur og það hefur verið eftirspurn eftir matjurtagörðum fyrir almenning,” segir hann.
Hægt verður að leigja garða í Breiðholti, Árbæ, Vesturbæ, Fossvogi, Laugardal og Grafarvogi. Aðspurður segir Gunnar að úthlutunarreglurnar séu einfaldar. „Fólk er skráð þar til garðarnir eru orðnir fullir,” upplýsir hann. Um sex hundruð skikar eru í boði. Þá stendur Reykvíkingum áfram til boða að leigja 100 fermetra garðland í Skammadal ofan við Mosfellsbæ fyrir 4.600 krónur.
Hagræðingin á ekki eingöngu að felast í hækkaðri garðleigu og minni tilkostnaði vegna sumarstarfsfólks og útsæðis. Framkvæmda- og eignasvið borgarinnar hefur nú tekið yfir húsakostinn við skólagarðana og hyggst nýta hann til að afla tekna. Þannig hefur verið sótt um leyfi til að fá að leigja þrjú húsanna til dagforeldra. Þau hús eru við Logafold í Grafarvogi, við Bjarmaland í Fossvogi og við Holtaveg í Laugardal.
„Nú þegar eru dagforeldrar komnir með á leigu nokkur hús við gæsluvelli borgarinnar og hefur það komið vel út fyrir alla,” segir eignasviðið í leyfisumsókn sinni. Við gæsluvellina leigi tveir dagforeldrar hvert hús saman og reiknað sé með því sama hvað skólagarðahúsin varðar.

{loadposition nánar fréttir}

 

oli
Author: oli

Vefstjóri