Barninu gefið brjóst á fullri ferð
Í aftursætinu var kona á svipuðum aldri og hélt hún á ungbarni í fanginu og var að gefa því brjóst. Lögreglan benti fólkinu vinsamlegast á að betra væri að leggja bílnum við vegkantinn, eða á einhverjum öðrum heppilegri stað, til þess að gefa barninu að drekka ef það þyldi enga bið.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni tóku karlinn og konan, sem var ekki í öryggisbelti, afskiptum lögreglunnar heldur fálega og var þá undirstrikað að bæði móðir og barn væru óvarin ef þau lentu í árekstri. Sem fyrr fóru ábendingarnar fyrir ofan garð og neðan en það var þó bót í máli að barnabílstóll var til staðar. Hann var hinsvegar laus í bílnum og fólkið virtist ekki kunna að festa hann almennilega þegar þess var krafist. Á stólnum voru þó leiðbeiningar um hvernig það skyldi gert og var barnabílstóllinn því festur tryggilega undir eftirliti lögreglumanna á vettvangi.
Að því búnu var barninu komið þar fyrir á ábyrgan hátt og fólkinu síðan leyft að halda för sinni áfram. Málið var tilkynnt til barnaverndaryfirvalda.
{loadposition nánar fréttir}