Reyna að lokka börn

Reyna að lokka börn upp í bíla

Maðurinn bauð stúlkunum sælgæti en þær neituðu, hlupu heim og létu foreldra sína vita, sem tilkynntu lögreglu um málið.  Síðustu tvær vikur hafa lögreglu borist fimm tilkynningar um að börnum undir tíu ára aldri hafi verið boðið bílfar með ókunnugum.

Lögreglan hefur fengið tvær tilkynningar um að tveir menn á svörtum bíl reyni að lokka ókunnug börn upp í bílinn með leikföngum og sælgæti. Lögreglunni hafa borist alls fimm tilkynningur síðastliðinn hálfan mánuð um að börnum undir tíu ára aldri hafi verið boðið bílfar með ókunnugum.

Björgvin Björgvinsson, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar, segir að í tveimur tilfellum geti verið um sama bílinn að ræða, svartan fólksbíl, en tveir menn undir þrítugu hafi boðið börnum í Garðabæ og Hafnarfirði leikföng eða sælgæti komi þau inn í bílinn. Óljósar lýsingar eru til á mönnunum tveimur. Ekkert barnanna þáði bílfarið heldur fóru þau heim til sín og greindu foreldrum sínum frá. Foreldrarnir settu sig í samband við lögregluna. Eru foreldrar hvattir til að ræða við börn sín og brýna fyrir þeim að þiggja ekki bílfar hjá ókunnugum.

Eðlileg skýring hefur fengist á einni tilkynninganna. Þá bauð faðir tveggja drengja öðrum far heim af íþróttaæfingu við Laugardalshöllina vegna veðurs. Hin tilfellin eru óskýrð, í Garðabæ, Hafnarfirði, Grafarvogi og Breiðholti. Lögreglan hefur engan sérstakan viðbúnað vegna þessara mála, en viðar að sér upplýsingum og hefur vakandi auga með bílum sem gætu komið til greina.

 

{loadposition nánar fréttir}

 

oli
Author: oli

Vefstjóri