Of feitum börnum fækkað um helming
Helmingi færri sex ára börn á Íslandi eru of feit nú samanborið við ástandið fyrir tíu árum. Þá var fimmta hvert sex ára barn of feitt en tíunda hvert barn nú.
Þetta kom fram í erindi Ingibjargar Gunnarsdóttur sem hún flutti á ráðstefnu Samtaka norrænna næringarfræðinga sem haldin var á Hotel Nordica í gær. Þar kynnti hún niðurstöður rannsóknar sinnar á langtímaáhrifum breytinga í mataræði ungbarna, sem ná til tíu ára tímabils.
Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru að tíðni ofþyngdar sex ára barna hefur lækkað úr 20 prósentum í 10 prósent á tíu ára tímabili. Tveir árgangar voru rannsakaðir, sá fyrri fæddur á árabilinu 1995 til 1997 og sá síðari árin 2005 til 2007.
„Meðal breytinga sem sjást á mataræði ungbarna milli kannana er að prótínneysla við níu mánaða aldur er lægri í seinni árgangnum,“ segir Ingibjörg. Hún segir að þetta megi skýra með því að þau drekki minna af kúamjólk. Í fyrirlestri Ingibjargar var bent á að árið 2003 voru nýjar ráðleggingar til foreldra ungbarna kynntar á Íslandi. Meiri áhersla var lögð á brjóstagjöf, ráðlagt að takmarka neyslu barnanna á venjulegri kúamjólk og sérstök stoðmjólk kynnt til sögunnar.
„Mjög háa prótínneyslu mátti útskýra, meðal annars, með mikilli neyslu á venjulegri kúamjólk, allt að tvo lítra á dag meðal 9-12 mánaða barna,“ segir Ingibjörg.
Aðrar rannsóknir hafa sýnt fram á að mikil prótíninntaka á fyrstu árum lífsins getur aukið hættu á offitu síðar í þroskaferli barna.
„Strákar sem neyttu mest af prótíni við 9-12 mánaða aldur voru með marktækt hærri líkamsþyngdarstuðul við sex ára aldur en drengir sem neyttu minna prótíns,“ segir Ingibjörg. „Fleiri áhrifaþættir gætu spilað inn í þessar niðurstöður en áhrif prótíninntöku eru áhugaverð.“
Inga Þórsdóttir er aðalskipuleggjandi ráðstefnunnar. Hún segir vinnu rannsóknarhópsins frábæra. „Ísland hefur batnað á rannsóknartímabilinu. Unga fullorðna fólkið er að gera betri hluti við uppeldi barna sinna en það gerði fyrir tíu árum.“
Ráðstefnan var sett í tíunda sinn í Reykjavík í gær, en hún er haldin fjórða hvert ár. Vigdís Finnbogadóttir er verndari ráðstefnunnar í ár og var hún viðstödd setninguna í gærmorgun, samkvæmt vísir.
{loadposition nánar fréttir}