Auka þarf samráð við börn

Auka þarf samráð við börn

 Viðhorfsbreytingu þarf í samfélaginu svo barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna virki sem skyldi. Þetta segir umboðsmaður barna. Auka þurfi samráð við börn um hagsmuna- og mannréttindamál þeirra.

Íslensk stjórnvöld undirrituðu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna árið 1990. Hann felur í sér alþjóðlega viðurkenningu á því að börn hafi sjálfstæð réttindi, óháð foreldrum og forsjáraðilum, og þau þarfnist sérstakrar umönnunar og verndar umfram hina fullorðnu.

Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna, segir að þrátt fyrir velvilja sé sjaldan vitnað í ákvæði sáttmálans við úrlausn mála hjá stjórnvöldum og dómstólum, og ríki og sveitarfélög megi gera miklu betur í því að innleiða hann þannig að hann sé hafður að leiðarljósi í allri vinnu með börnum og ákvarðanatöku í málefnum þeirra.

„Við þurfum að standa okkur mun betur í því að tala við börn og heyra hvað þeim finnst og fá skoðanir þeirra. Og dæmi um það er til dæmis þegar endurskoðað var hvernig börn eru skráð í framhaldsskóla, þá var haft víðtækt samráð við fullt af aðilum en ekkert samráð við börn. Þetta varðar þau og það eru skylda ríkisins að hlusta á raddir barna og gefa þeim færi á að tjá sig,” segir Margrét María.

Árlegur fundur umboðsmanna barna á Norðurlöndum er nú haldinn hér á landi. Á málþingi í morgun báru umboðsmennirnir saman bækur sínar og fóru yfir innleiðingu barnasáttmálans í löndum sínum.

Margrét segir að Íslendingar standi sumum þjóðum að baki en öðrum ekki. Það sem mest vanti upp á hérlendis sé almenn fræðsla um sáttmálann. Hún hyggst standa fyrir námskeiðum um innleiðingu sáttmálans fyrir starfsmenn ríkis og bæja í haust, viðhorfsbreytingu þurfi í samfélaginu öllu.

„Það er pólitískur vilji og lögum hefur verið breytt, en það vantar að við fólkið höfum meiri þekkingu og meiri skilning á réttindum barna og þá held ég fyrst að við munum sjá miklar breytingar,” segir Margrét María, samkvæmt vísir.

 

{loadposition nánar fréttir}

 

oli
Author: oli

Vefstjóri

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *