Nýtt ADHD-lyf innan seilingar
enda bregða þær nýju ljósi á orsakir kvillans og, sem heyrir ekki síður til tíðinda, möguleg lyf gegn ADHD.
Hákon flutti til Fíladelfíu árið 2006 þar sem hann var ráðinn til að fara fyrir nýrri deild erfðafræðirannsókna á spítalanum, en hann hafði áður unnið hjá Íslenskri erfðagreiningu frá 1998. Síðan þá hefur deildin sannarlega vaxið hratt og nú vinna þar 89 manns að tugum rannsóknaverkefna. Þá hefur deildin safnað erfðaefnasýnum úr ríflega 70.000 börnum og 30.00 foreldrum, sem er stærsta barnalífsýnasafn í heiminum í dag.
Erfðabreytileiki orsökin hjá 10% ADHD-sjúklinga
ADHD-rannsóknin, sem birt var í tímaritinu Nature Genetics fyrir skemmstu, er þó eitt af mestu afrekum Hákonar og hans fólks en þess má þó geta að tímaritið TI
ME setti uppgötvun Hákonar á erfðavísum tengdum einhverfu í hóp tíu mestu vísindaafreka ársins 2009.
„Við erum búin að vinna að ADHD-rannsókninni í rúm þrjú ár,” segir Hákon í samtali við Fréttablaðið og bætir því við að margt varðandi ADHD kalli á ítarlegar rannsóknir. Til dæmis séu börn sem þjáist af ADHD líklegri til þess að lenda á jaðri samfélagsins og lyfin sem helst hafi verið notuð gegn sjúkdómnum séu örvandi lyf eins og amfetamín og amfetamínafleiður, sem hafi margs konar neikvæðar afleiðingar þótt þau komi að gagni í sumum tilfellum.
„Við náðum að safna lífsýnum frá rúmlega 1.100 börnum með ADHD sem okkar rannsókn byggir á, og það sem komið hefur í ljós með því að skanna allt erfðamengi þeirra mjög ítarlega með 500.000 til 1 milljón erfðamarka er að rúmlega 10% úr þessum hópi hafa ákveðinn erfðabreytileika í genum sem skrá fyrir sérstök eggjahvítuefni sem sjá um boðefnaflutning í heilanum, þar sem algengast er að eitt gen eða hluta af geni vantar sem raskar starfsemi þessara boðefnabrauta.”
Þessi breytileiki hefur þau áhrif, að sögn Hákonar, að minna er framleitt af eggjahvítuefni sem frumur í heila nota til samskipta sín á milli og eru nauðsy
nleg til að halda athygli og stjórn á margvíslegri líkamsstarfsemi.
„Þetta er flókið samspil á milli mismunandi boðefnakerfa en lykilþátturinn er að skortur á þessum eggjahvítuefnum sem eru nauðsynleg til að boðin berist eðlilega um heilann leiðir til svipgerðar eins og ADHD. Það er jafnframt athyglisvert að við sjáum hliðstæðar breytingar í þessari sömu genafjölskyldu hjá sjúklingum með einhverfu og geðklofa.”
Fundu gagnlegt lyf sem stytti leiðina
Þegar þessi orsakaþáttur hafði verið staðfestur var hægt að byrja að leita leiða til að leiðrétta það sem út af bar.
Hákon og hans fólk voru heppin því að þau fundu nokkurra ára gamla lyfjarannsókn frá Japan þar sem reynt var að hanna lyf við Alzheimer-sjúkdómnum, sem bar ekki árangur sem slíkt, en lyfið sem var notað eykur magn boðefnisins sem hann hefur nýverið sýnt fram á að skortir hjá ákveðnum undirhópi barna með ADHD.
„Japanarnir g
erðu tilraunir á músum sem leiddu til þess að þeir töldu að lyfið hefði áhrif á minni. Þegar við skoðuðum málið nánar var hins vegar líklegra að um væri að ræða að lyfið væri að bæta athygli hjá þeim músum sem sýndu athyglisbrest eftir að eitt af þessum genum hafði verið fjarlægt. Þetta lyf hefur einmitt þau áhrif að leiðrétta afleiðingarnar af erfðabreytileikanum sem við fundum hjá ADHD-börnunum og réttur skammtur af lyfinu gæti því hjálpað þessum börnum og mögulega læknað sjúkdóminn.”
Hákon segir að þrátt fyrir að lyfið hafi ekki haft þau áhrif sem upprunalegu vísindamennirnir ætluðu hafi stór hópur fólks þegar fengið lyfið í tilraunaskyni án þess að neinar aukaverkanir hafi fylgt því. Þá segir hann einstaklinga með Alzheimer-sjúkdóm ekki með erfðabreytingar í þessum genum heldur, þannig að það sé ólíklegt eftir á að hyggja að lyfið mundi virka við þeim sjúkdómi, en þetta hafi Japanarnir ekki vitað á þeim tíma.
„Þannig fengum við upp í hendurnar lyf sem búið var að þróa heilmikið en hafði aldrei verið sett á markað. Nú höldum við áfram með prófanir og stefnum að því að skrá lyfið á markað hér í Bandaríkjunum og þar á eftir í Evrópu. Við erum í raun mjög heppin að komast inn í þessa þróun. Ef við værum að byrja frá grunni værum við að horfa til þess að koma lyfi á markað eftir tólf til þrettán ár en núna miðum við að því að koma því á markað eftir þrjú ár. Það er mikill munur þar á.”
Lyfið verður aðeins gefið þeim hópi barna sem hefur fyrrnefndan erfðabreytileika, en greiningarpróf fyrir því tekur einn dag í framkvæmd. Hákon telur möguleika á að mun stærri hópur ADHD-barna gæti verið með erfðabreytileika sem þau misstu af í fyrstu erfðamengjaskönnuninni eða í öðrum genum sem ekki hafa fundist ennþá en tengjast þessum sömu boðleiðum.
„Við erum einmitt að raðgreina alla okkar sjúklinga til að meta það.”
Fleiri stórverkefni í vinnslu
Fyrir utan þennan hóp sjúklinga er Hákon vongóður um að lyfið gæti komið að notum við meðhöndlun á einhverfu og geðklofa í börnum þar sem rannsóknarhópur hans hefur fundið sambærilegar genabreytingar í þeim sjúkdómum líka, þó ekki eins algengar og í ADHD, og verður það næst á dagskránni þegar ADHD-rannsókninni lýkur. „Það er ekki til nein góð meðferð við þeim kvillum heldur, þannig að það yrði stórt skref fram á við ef okkar lyfjaþróun gengi upp.”
Hákon bætir því við að teymi hans sé um þessar mundir að vinna að þremur stórum verkefnum þar sem lausnir séu í sjónmáli. Fyrir utan ADHD-verkefnið eru þau annars vegar að rannsaka erfðabreytileika sem orsaka þarmabólgu og hins vegar breytileika sem veldur krabbameini í ákveðnum hópi barna. Í síðara tilvikinu eru þegar hafnar tilraunir með lyf sem hafa gefið góða raun fram til þessa og verður lyfið við þarmabólgu sett í þróun á næstunni.
„Það eru spennandi hlutir að gerast og það er sérstaklega gaman að sjá að við erum ekki bara að finna hluti og skrifa um þá, heldur erum við með mörg stór verkefni eins og ADHD, þarmabólgu og krabbamein þar sem við erum þegar farin að þróa lyf til að lækna börn.”
{loadposition nánar fréttir}