Neyðarpillan var nær uppseld á landinu
Þó neyðarpillan hafi verið ófáanleg í einhverjum apótekum var yfirleitt hægt að vísa einstaklingum í önnur apótek. „En það hefur komið fyrir að það hafi leitað hingað konur en orðið frá að hverfa því pillan var ekki fáanleg,” segir starfsmaður í Lyfju í Lágmúla en þar kláraðist pillan í gær. „Þetta er svolítið bagalegt,” bætir hann við.
Samkvæmt upplýsingum frá dreifingaraðilanum Parlogis skilaði ný sending af neyðarpillunni sér til landsins í gær og verður líklega komin í öll helstu apótek á morgun. „Það verða kannski ekki allir staðir úti á landi komnir með þetta á morgun, en vonandi einhverjir,” segir Sigríður María Reykdal hjá innflutningsaðilanum Parlogis.
Ástæðan fyrir því að neyðarpillan kláraðist nánast á landinu er sú að verið var að breyta um pakkningar á lyfinu og það tekur að sögn Sigríðar tíma að fá umbúðirnar samþykktar. Því var lyfið á biðlista frá 17. desember og þar til í gær.
Skortinn á þessari getnaðarvörn ber upp á fremur óheppilegum tíma því eins og Sigríður orðar það pent „eykst eftirspurnin eftir þessari pillu í kringum alla hátíðardaga, hvort sem það eru jólin, áramót, verslunarmannahelgin eða eitthvað annað.” Starfsmenn í lyfjabúðum voru enda farnir að hafa áhyggjur af skortinum. „En þetta olli ekki verulegum vandræðum í þetta sinn,” segir Sigríður.
Til þess að neyðarpillan virki er nauðsynlegt að taka hana innan 72 tíma frá samræði en æskilegt er að gera það sem allra fyrst.
Hér að neðan má sjá upplýsingar af biðlista eftir lyfum. Neyðarpillan nefnist Postinor og hafði verið á biðlista frá 17. desember án þess að nokkrar upplýsingar kæmu fram um hvenær hún væri væntanleg. Starfsfólk í lyfjaverslunum var því orðið áhyggjufullt yfir skortinum.
{loadposition nánar fréttir}