Leikskólaverkfall yfirvofandi
Enginn árangur varð af samningafundi leikskólakennara og sveitarfélaga í dag.Allt stefnir í að verkfall leikskólakennara hefjist eftir viku. Rúmlega sextán þúsund börn eru í leikskólum sem reknir eru af sveitafélögunum og mun verkfallið hafa áhrif á að minnsta kosti fjórtán þúsund fjölskyldur.
Samninganefndir leikskólakennara og sveitarfélaga áttu stuttann fund í morgun en svo mikið ber í milli að ekki hefur verið boðaður annar fundur. Ef ekki næst samkomulag í þessari viku munu leikskólakennarar leggja niður störf mánudaginn 22. ágúst.
Leikskólakennarar hafa farið fram á rúmlega 26 prósenta launahækkun, sem er 11 prósentustigum meiri hækkun en samið hefur verið um við aðrar kennarastéttir. Félag leikskólakennara hefur þó boðið upp á að inn í þessari hækkun væri borgað matarhlé, en þá fá leikskólakennarar greitt fyrir að borða með börnunum. „Þessu er búið að hafna hjá SNS en það þýðir það að þá væri þessi kostnaður ekki neinn fyrir Reykjavíkurborg sem er 40% minna félagsmanna,“ sagði Haraldur F. Gíslason, formaður Félags leikskólakennara, í sjónvarpsfréttum RÚV í kvöld.
240 leikskólar eru reknir af sveitafélögum og í þeim eru rúmlega sextán þúsund börn. Að auki eru 40 sjálfstætt starfandi leikskólar, en verkfallið hefur ekki áhrif á starfsemi þeirra.
Lögfræðingur Kennarasambands Íslands metur það svo, að loka verði deild leikskóla ef deildarstjórinn er í Félagi leikskólakennara. Lögfræðingur Sambands sveitafélaga á eftir að segja sitt mat á því.
Börnin sem skráð eru á leikskólana koma frá rúmlega fjórán þúsund heimilum svo verkfallið myndi því hafa víðtæk áhrif ef til þess kæmi.
Þyrftu að tvöfalda tilboð sitt
Sveitarfélög þyrftu að tvöfalda tilboð sitt til leikskólakennara, til að kröfur þeirra væru uppfylltar, segir Inga Rún Ólafsdóttir, formaður Samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga. Verkfall hefur verið boðað frá og með næsta mánudegi og var samningafundur í gær árangurslaus.
„ Það er deilt um launaliðinn, þar ber á milli. Við höfum boðið þeim sambærilega samninga og öðrum háskóla- og kennarafélögum en þau vilja að við tvöföldum það tilboð,“ segir Inga Rún.
Leikskólakennarar hafi farið fram á 11% launaleiðréttingu ofan á það tilboð sem þeim var boðið.
„Samningar sem gerðir hafa verið við sambærileg félög hafa verið milli 12 og 14%,“ segir Inga Rún.
Hún segist ekki geta verið bjartsýn á að samningar náist á þessari stundu.
„En að sjálfsögðu verða menn að tala saman og reyna til hins ýtrasta að ná samningi,“ segir Inga Rún.
Frekari fundir hafa ekki verið boðaðir.
{loadposition nánar fréttir}