Hverjir greina málþroska barna
Öll börn sem fara í 2 ½ árs og fjögurra ára skoðun heilsugæslunnar fara í gegnum málþroskaskimun sem ætlað er að fanga börn með slakan málþroska. Heilsugæslan vísar þeim börnum sem ekki standast skimunina við 2 ½ árs aldurinn til Heyrnar- og talmeinastöðvar til frekari greiningar á málþroska og í heyrnarmælingu. Börnum sem standast ekki málþroskaskimun við fjögurra ára aldur er hægt að vísa til Heyrnar- og talmeinastöð eða til sjálfstætt starfandi talmeinafræðinga.
Ætla má að 2 – 19% barna á leikskólaaldri séu með seinkun eða frávik í málþroska (matið er misjafnt eftir rannsóknum; sjá Nelson, 2006). Sértæka málþroskaröskun er að finna hjá um 7,4% fimm ára barna (Tomblin, 1997) og er hún oft tengd erfiðleikum með lestrartilteinkun þegar barnið byrjar í skóla. Um 5% 5 – 6 ára barna eru með frávik í framburði (NIDC, 2008) og 4 – 5% barna á aldrinum tveggja – fjögurra ára stama (Andrews, 1984; Zebrowski, 2003).
Endurteknar eyrnabólgur og vökvi í eyrum geta haft áhrif á tal og málþroska barnsins og því er mikilvægt að það fái viðeigandi meðhöndlun. Ef grunur er um heyrnarskerðingu eða frávik í málþroska er mikilvægt að leita aðstoðar. Starfsfólk leikskóla er almennt vel meðvitað um eðlilegt málþróunar ferli ungra barna og hafa, í samráði við foreldra möguleika á að vísa barninu áfram til frekari greiningar. Einnig er hægt að leita til heimilis-, barna-, eða háls-, nef- og eyrnalæknis sem getur vísað barninu til Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands í heyrnarmælingu og málþroskamats. Þá er hægt að panta tíma hjá sjálfstætt starfandi talmeinafræðingum sem meta stöðu barnsins og þörf þess fyrir leiðbeiningar og þjálfun.
Heimildir: Heyrnar og talmeinastöð Íslands.