Hækkanir á opinberri þjónustu valda verðbólgu
Áætla má að hækkanir á opinberum álögum hafi á síðustu árum hækkað verðlag hér á landi um 5-6%. Þetta kemur fram í greinargerð frá ASÍ.
Þar segir að breytingar á álögum sveitarfélaga hafi umtalsverð áhrif á verðlag. Þar má nefna að gjaldskrár leik- og grunnskóla hafa hækkað mikið á undanförnum árum en skv. vísitölu neysluverðs hækkuðu leikskólagjöld um 35% á árunum 2008-2012 og síðdegisvist í grunnskólum um 36%.
Þá segir að álögur sveitarfélaganna á fasteignaeigendur hafi hækkað mikið undanfarin ár. Gjöld fyrir sorphirðu hækkuðu um 50% á árunum 2008-2012, holræsagjöld um ríflega 60%, vatnsgjöld um tæplega þriðjung og rafmagn og hiti um 66% á sama tímabili. Samanlagt hafa þessi gjöld áhrif til hækkunar á verðlagi um ríflega 2% á tímabilinu.
Í janúar 2010 hækkaði efra þrep virðisaukaskatts úr 24,5% í 25,5%. Ætla má að sú hækkun hafi skilað sér í um 0,2% hækkun á verðlagi í upphafi árs 2010.
Ríkið leggur auk virðisaukaskatts sérstakar álögur á eldsneyti, áfengi og tóbak sem hækkuðu fimm sinnum á árunum 2008-2012. Í heildina hækkaði verð á áfengi og tóbaki um ríflega 67% á tímabilinu en rekja má um 30% hækkun til hækkana á áfengis- og tóbaksgjaldi. Verð á bensíni og olíu hækkaði um tæplega 87% á árunum 2008-2012 en rekja má um 32% hækkun til hækkana á bensín- og olíugjaldi.
Samanlagt hafa auknar álögur ríkisins á áfengi, tóbak, bensín og olíu hækkað verðlag um 2% á tímabilinu. Þá hækkuðu gjaldskrár heilbrigðisþjónustunnar um ríflega þriðjung á árunum 2008-2012 en sú hækkun hefur áhrif til hækkunar á verðlagi um 0,5% á tímabilinu, samkvæmt vísir.
{loadposition nánar fréttir}