barn a indlandi

Föst með barn á Indlandi

Í nóvember ól indversk staðgöngumóðir barn fyrir íslensk hjón. Engin sérstök lög gilda um staðgöngumæðrun á Indlandi en einkasjúkrahús veita þó slíka þjónustu. Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur sjúkrahúsið gefið út fæðingavottorð þar sem íslensku hjónin eru tilgreind sem foreldrar barnsins, sem hefur hlotið nafnið Jóel Færseth Einarsson, þó svo að konan hafi ekki gengið með og fætt hann. Hjónin töldu að fæðingarvottorðið myndu duga svo þau gætu fengið að koma með drenginn til Íslands. Það hefur hins vegar ekki verið raunin.

Fyrir áramót hafði lögmaður hjónanna samband við Birgi Ármannsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, sem á sæti í allsherjarnefnd. Hann kynnti málið fyrir nefndarmönnum sem ákváðu að veita drengnum íslenskan ríkisborgararétt.

Sú ákvörðun hefur valdið innanríkisráðuneyti Ögmundar Jónassonar nokkrum vandkvæðum og samkvæmt heimildum fréttastofu kann ráðuneytið allsherjarnefnd litlar þakkir. Ráðuneytinu mun þykja fæðingavottorð gefið út af einkasjúkrahúsi ekki traustur pappír. Þá hljóti eiginmaður staðgöngumóðurinnar að fara með forræðið ásamt henni þar til sýnt hafi verið fram á annað.

Samkvæmt heimildum fréttastofu gera íslensk stjórnvöld kröfu um DNA-próf sem sýni að íslenski maðurinn sé faðir drengsins, einnig að indversk stjórnvöld staðfesti að íslensku hjónin fari með forræði Jóels. Takist þetta ekki gætu hjónin þurft að höfða svokallað véfengingarmál fyrir dómstólum á Indlandi.

Innan- og utanríkisráðuneytið vísa hvort á annað í málinu. Utanríkisráðuneytið segist hafa óskað eftir ákveðnum gögnum frá indverskum stjórnvöldum. Langur tími geti liðið þar til þau berist, hugsanlega nokkrar vikur eða mánuðir. Það er því ljóst að hjónin og drengurinn koma ekki til Íslands næstu mánuðina að minnsta kosti.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra vildi ekki veita fréttastofu viðtal en segist standa frammi fyrir ákvörðun allsherjarnefndar. Staðreyndin sé sú að málið sé flókið. Ráðuneytið geri þó allt sem það geti til að greiða götur hjónanna.

 

{loadposition nánar fréttir}

 

oli
Author: oli

Vefstjóri