kaninur i ellidardalnum

Fóðra kanínur í trássi við reglur borgarinnar

Árný Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, segir að eftirlitinu hafi borist nokkrar ábendingar vegna kanínanna.
Málið sé í skoðun hjá eftirlitinu ekki síst vegna slysahættunnar sem þeim fylgi. „Þær eiga það til að hlaupa út á Breiðholtsbrautina og geta valdið slysum þar. Eins éta þær gróður hjá íbúum í dalnum sem og í borgarlandinu,” segir Árný.

Kanínurnar í Elliðaárdal sækja margar hverjar í heimili Jóns Þorgeirs Ragnarssonar og Halls Heiðars Hallssonar sem búa á Skálará við Vatnsveituveg en þeir fóðra kanínurnar daglega. Ekki eru allir sáttir við það og telja sumir að þeir stuðli að fjölgun nagdýranna.

Jón Þorgeir segir þá ekki halda kanínur enda hafi þeir aldrei keypt eina einustu kanínu. „En þær eru hérna í kring og við gefum þeim að borða,” segir hann. „Þegar ég er spurður hvort við eigum kanínurnar segi ég alltaf nei. Þær eiga sig sjálfar.”

Lausaganga kanína er með öllu óheimil samkvæmt samþykkt Reykjavíkurborgar um gæludýrahald. Halda verður kanínum innan girðingar eða lóðamarka og bannað er að fóðra þær utan þeirra.
Framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlitsins segir það ekki ganga að verið sé að fóðra kanínurnar. „Við verðum að tala við þá, því þetta á ekki að líðast. Ef þeir velja að halda kanínur þá verða þeir að gera það inni á sinni lóð,” segir Árný.

Jón Þorgeir segir að hann og sambýlismaður hans séu ekki þeir einu sem gefi kanínunum að borða. „Hingað kemur fólk frá veitingastöðum, sjúkrahúsum og öðrum stöðum til að gefa þeim.”

Hann telur að um sjötíu til áttatíu kanínur séu í Elliðaárdalnum. Aðrir sem Fréttablaðið hefur rætt við telja að þær séu á annað hundrað talsins.
Jón Þorgeir segir að kanínurnar veki athygli þar sem þær séu mjög spakar. Fólk komi í dalinn til að skoða þær. Hann segir þó sumt fólk, ketti og máva drepa kanínurnar.

„Mér finnst það forréttindi að fá að umgangast dýrin frjáls en við eigum þær ekki,” segir hann „Mér finnst yndislegt að fá að umgangast dýrin í sínu náttúrulega umhverfi en þau koma aldrei hingað inn. Við erum meira að segja hættir að klappa þeim því ef þær eru gæfar eru þær dauðar,” segir Jón Þorgeir.

 

 

{loadposition nánar fréttir}

 

 

 

 

 

 

oli
Author: oli

Vefstjóri