Fimmtán marka stúlkubarn fyrsta barn ársins
Stúlkan vó 3700 grömm og 52 sentímetrar eða um fimmtán merkur. Fjölskyldunni heilsast vel að sögn Guðrúnar Sigríðar Ólafsdóttur, vaktstjóra á fæðingarvaktinni.
Þrjú önnur börn fæddust á fæðingarvaktinni í nótt og gert er ráð fyrir því að þau verði nokkuð fleiri í dag.
Halda í sér vegna lagabreytinga
„Það er ekkert á leiðinni akkúrat núna en það verður nóg að gera í dag,“ segir Guðrún Sigríður.
Það sé vegna þess að konur hafi markvisst verið að reyna að fara ekki af stað í fæðingu fyrir áramótin. „Þær hafa verið að halda í sér vegna breytinga á fæðingarorlofslögunum,“ segir Guðrún Sigríður.
Í dag tóku í gildi breytingar á lögum um fæðingarorlof og er helsti munurinn frá fyrri lögum að það lengist úr tíu mánuðum í tólf. Heimildir til framsals fæðingarorlofsréttar eru rýmkaðar nokkuð mikið og ýmislegt annað breytist sömuleiðis.
Hvernig gera þær það? „Bara með því að hreyfa sig varla. Þora bara ekki að gera neitt. Svo vilja þær ekki gangsetningu og annað en þetta hefur ekki orðið til neinna vandræða,“ segir Guðrún Sigríður en heyra má á henni að henni finnist staðan frekar skondin.
„Það eru bara allir glaðir því það er komið nýtt ár,“ segir hún.
Samkvæmt upplýsingum frá sjúkrahúsinu á Akureyri fæddist drengur klukkan 6:05 í morgun.
Fyrsta barn ársins 2020 fæddist einnig á fæðingardeild Landspítalans klukkan 2:19 á nýársnótt í fyrra og var það drengur, samkvæmt visir.
{loadposition nánar fréttir}