Ekki skal slæva börn fyrir flug
|

Ekki skal slæva börn fyrir flug

Ekki skal slæva börn fyrir flugFerðalög Sumir bandarískir foreldrar hafa gripið til þess ráðs að gefa börnum sínum slævandi lyf fyrir langar flugferðir svo þau sofi og verði til friðs. Ekki er ráðlegt að gera slíkt að sögn Michaels Clausen barnalæknis.
Það ráð er þekkt meðal bandarískra foreldra að gefa ungum börnum ofnæmislyf eða hóstamixtúrur fyrir löng ferðalög.Það ráð er þekkt meðal bandarískra foreldra að gefa ungum börnum ofnæmislyf eða hóstamixtúrur fyrir löng ferðalög. Slík lyf eru slævandi sem gerir það að verkum að börnin verða í flestum tilvikum syfjuð. Frá þessu er sagt í grein á vefsíðu BBC. Blaðamaðurinn Regan Morris kafar þar ofan í nokkrar spjallsíður bandarískra foreldra sem deila ýmsum ráðum, til dæmis hvernig þeir nýti sér áðurnefnd lyf til að gera ferðalög bærilegri fyrir sig, barnið og samferðalanga. Eins og gefur að skilja eru afar skiptar skoðanir á þessum aðferðum.

Bandarísku barnalæknasamtökin eru afar mótfallin því að börn séu róuð með þessum hætti en að sögn sumra foreldranna á spjallsíðunum hafa einstaka barnalæknar lætt að þeim þessu ráði.

Michael Valur Clausen barna- og ofnæmislæknir segist hafa heyrt af því að foreldrar erlendis sækist eftir lyfjum en segist ekki kannast við að íslenskir foreldrar hafi gripið til þessara ráða á löngum ferðalögum. “Ég man bara eftir því einu sinni á mínum ferli að beðið hafi verið um lyf fyrir barn sem var mjög kröftugt og foreldrarnir höfðu miklar áhyggjur af því að fara í flug,” upplýsir Michael en segir að vissulega hafi sumir foreldrar áhyggjur af því að börn sín gráti í flugtaki og lendingu. Hann telur hins vegar að Íslendingar hafi almennt minni áhyggjur af því að börn þeirra trufli fólk. “Ég hef oft verið í flugi þar sem börn hafa grátið í flugtaki og lendingu og Íslendingar missa sig ekki yfir því. Ég hef hins vegar einnig verið að fljúga annars staðar í heiminum þar sem allt hefur farið í háa loft út af grátandi börnum,” segir hann og bætir við að fólk verði að sýna skilning. “Við þurfum að sjálfsögðu að skilja að ef einhver grætur þá er það vegna þess að honum líður illa en ekki vegna óþekktar.”

Micheal segir lækna alls ekki hrifna af að skrifa út sljóvgandi lyf í þeim eina tilgangi að hafa börnin róleg í flugi. Hann segir allt öðru máli gegna þegar börn þjáist af ferðaveiki, verði bílveik, flugveik og kasti upp. “Þá skrifum við upp á lyf. Þau lyf hafa reyndar þá hliðarverkun að vera sljóvgandi og börn verða því oft þreytt af þeim. Hins vegar reynir maður að skammta lyfin þannig að börnin fái ekki ógleði en séu samt vakandi og glöð.”

Michael segir lækna hrædda við að gefa börnum sljóvgandi lyf þar sem þau geti í sumum tilvikum haft gagnstæð áhrif. “Krakkinn sem átti að verða sljór verður mjög hress og þá fer allt í háa loft,” segir hann. Þá bætir hann við að síst af öllu eigi fólk að vera með tilraunastarfsemi á lyfjagjöf í háloftunum því langt sé í hjálp ef eitthvað kemur fyrir.

Heimildir: vísir.is

oli
Author: oli

Vefstjóri