Einfalda þurfi einkunnakerfið og setja skýrari verklagsreglur

Einfalda þurfi einkunnakerfið og setja skýrari verklagsreglur

Einfalda þurfi einkunnakerfið og setja skýrari verklagsreglurNámsmat í grunnskólum er óskýrt, að mati kennara sem segist skilja að foreldrar og nemendur séu ósáttir við einkunnir. Munur sé á einkunnagjöf milli skóla.

Þörf er á skýrari verklagsreglum um námsmat í grunnskóla, að mati kennara. Verðbólga hefur verið í einkunnagjöf síðustu ár.

Lokað verður fyrir umsóknir í framhaldsskóla á miðnætti. Það eru því margir nemendur spenntir fyrir því að fá á hreint hvert leiðin liggur í haust.

Þar getur munur á því hvort nemandi í 10. bekk fær A eða B plús í lokaeinkunn skipt öllu máli.

Segir verklagsreglur um einnkunnagjöf óskýrar
Kennarar hafa kvartað yfir því að ekki séu skýrar verklagsreglur í aðalnámskrá um hvað hver bókstafur stendur fyrir í því hæfnismati sem tekið var upp 2016.

Guðrún Kjartansdóttir grunnskólakennari segir að meta þurfi hvern nemanda fyrir sig.

„Mér finnst þetta mjög huglægt og í raun þarf ég að meta hvern nemenda fyrir sig út frá mjög loðnum hæfnisviðmiðum sem aðalnámskrá setur.“

Álagið sé mikið á kennara sem upplifi í auknum mæli að fagmennska þeirra sé dregin í efa. Sagt var frá því í gær að dæmi séu um að foreldrar nemenda í 10. bekk hóti kennurum, fái börn þeirra ekki einkunnir sem duga þeim til að komast í vinsæla framhaldsskóla.

Skilur vel að að foreldrar séu ósáttir
Guðrún segist skilja vel að foreldrar séu ósáttir.

„Ég skil bara vel að þeir séu pirraðir. Ég meina af hverju kemst ekki barnið mitt inn i Versló eða MR á meðan annað barn sem er kannski með sömu hæfni kemst inn.“

Menntamálastofnun þurfi að setja skýrari verkreglur fyrir alla grunnskólakennara og einfalda einkunnakerfið þannig að allir hafi skilning á því.

Námsmat nemenda í höndum hvers skóla fyrir sig
Sverrir Óskarsson, sérfræðingur hjá stofnuninni, segist þekkja þetta vandamál vel. Eftir að samræmdu prófin voru lögð niður sé námsmat nemenda alfarið í höndum hvers skóla fyrir sig. Í langflestum tilfellum sé A í einum skóla það sama og A í öðrum skóla.

„Ábyrgðin á námsmati í dag er alfarið skólanna. Þannig núna er meiri pressa á þá. Á sama tíma segja okkar gögn að ákveðin einkunnaverðbólga hafi verið í gangi. Við erum að sjá að hlutfall einkunninnar A er að hækka um svona þrjú prósent á ári.“

Engar upplýsingar séu þó um það hjá Menntamálastofnun að dregið hafi úr faglegri vinnu kennara. Námsmatið sé flókið og byggist á mörgum þáttum.

„Þess vegna er líka áskorun fyrir foreldra. Sérstaklega mína kynslóð sem fékk einfalda einkunn og allt átti að kristalast í kringum það.“, samkvæmt RUV.

oli
Author: oli

Vefstjóri