Danskur ráðherra vill fjarlægja spjaldtölvur úr leikskólum

Danskur ráðherra vill fjarlægja spjaldtölvur úr leikskólum

Danskur ráðherra vill fjarlægja spjaldtölvur úr leikskólumBarna-og menntamálaráðherra Danmerkur hefur lagt fram lagafrumvarp sem bannar spjaldtölvur í leikskólum. Lektor telur snjalltæki ekki vera vandamál í íslenskum leikskólum.Mattias Tesfaye, barna- og menntamálaráðherra Danmerkur, vill að spjaldtölvur verði fjarlægðar úr leikskólum. Hann leggur til lagabreytingu um að skjátími barna að sex ára aldri sé sem stystur.

Ætlunin er að takmarka neikvæð áhrif skjánotkunar á ung börn og auka þar með gæði leikskólastarfs. Nýlega kom út skýrsla sem sýndi að níu af hverjum tíu leikskólum í Danmörku standast ekki þær gæðakröfur sem eru gerðar til þeirra. Ráðherrann segir foreldra leikskólabarna kvarta undan því að börnin þeirra séu að horfa á efni í spjaldtölvu á leikskólatíma. Vill hann því grípa til ráðstafana og koma í veg fyrir skjátíma barna í leikskólum.

Foreldrar ósammála ráðherra
Landssamband foreldra í Danmörku, FOLA, efast um ástæður lagabreytingarinnar. Formaður samtakanna segir að skjánotkun barna sé ekki ástæða þess að leikskólar standist ekki gæðakröfur og gagnrýnir ráðherra fyrir afstöðu hans.

Samtökin segjast, frá árinu 2020, hafa fengið tvær ábendingar um of mikla skjánotkun barna í leikskólum. Formaður samtakanna segir að það sé tilfinning foreldra að snjalltæki hafi takmörkuð áhrif á starf leikskóla. Ráðherrann ætti fremur að einbeita sér að því að auka gæði leikskólastarfs.

Landssamband leikskólakennara í Danmörku, BUPL, tekur undir með foreldrum og segir formaður þess að spjaldtölvur geti nýst leikskólakennurum við nám, séu þær notaðar rétt. Mikilvægt sé þó að senda skýr skilaboð um að of mikil skjánotkun barna geti haft slæmar afleiðingar.

Snjalltæki ekki vandamál í íslenskum leikskólum
Svava Pétursdóttir, lektor við deild kennslu-og menntunarfræði við Háskóla Íslands, segir að notkun snjalltækja sé ekki mikil í íslenskum leikskólum. Leikskólar eigi oft spjaldtölvur sem séu helst notaðar við skráningar starfsfólks og myndatökur. Mikilvægt sé að starfsfólk sé meðvitað um notkun snjalltækja við nám ungra barna og að kennsla sé vel undirbúin. Helstu áhættuþættir við ofnotkun geti verið heft máltaka hjá börnum og minni hreyfing.

Svava segir að kostirnir við notkun snjalltækja við nám ungra barna geti verið miklir. Það sé hægt að nýta möguleika tækjanna til sköpunar og nýta tæknina við leik og sögugerð. Þannig geti börn jafnvel fengið tækifæri til þess að tjá sig á mismunandi, ólíkan hátt með myndatökum og hljóðupptökum, samkvæmt RUV.

oli
Author: oli

Vefstjóri