Eden brunnið til grunna
Tilkynning um reyk frá húsinu, sem var mannlaust, barst rétt upp úr miðnætti og var allt lið Brunavarna Suðurlands kallað út, en húsin, sem eru vel á annað þúsund fermetrar að gólffleti, urðu alelda á innan við hálftíma.
Slökkviliðsmenn sem hættu sér inn í húsið, urðu að forða sér út aftur undan æðandi eldtungum og ekki varð við neitt ráðið eftir að eldurinn læsti sig eftir þakinu, sem er úr eldfimu plasti. Gríðar mikinn svartan og eitraðan reik lagði upp af eldinum, en svo vel vildi til að logn var, og steig mökkurinn beint upp í loftið.
Rauði krossinn mannaði fjöldamóttökustöð, ef rýma þyrfti nálæg hús, en ekki kom til þess. Þá var um tíma óttast að eldurinn læsti sig í mikinn trjágróður og bærist þannig um nálægt hverfi, en slökkviliðsmenn komu í veg fyrir það.
Liðsauki var sendur af stað af höfuðborgarsvæðinu en var afturkallaður þegar ljóst varð að ekki yrði við neitt ráðið. Björgunarsveit var kölluð út til að aðstoða lögreglu og slökkvilið við að girða af svæðið og halda fólki frá vettvangi.
Að sögn lögregluvarðstjóra á vettvangi var eldurinn svo magnaður að það hvæsti í honum með óhljóðum og af og til stóðu reykhvirflar upp af húsinu eins og hvirfilvindar. Hitinn var um tíma svo mikill að færa þurfti slökkvibíla fjær húsinu til að verja þá skemmdum. Stálbitar í loftum undust upp eins og lakkrísrör.
Slökkvistarfi lauk um klukkan fjögur í nótt og stóð þá ekkert uppi nema steypt veggjabrot úr útveggjum. Eldsupptök eru ókunn, en rannsókn hefst með morgninum.
Slökkvistarfi í Eden er að mestu leyti lokið, en samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Selfossi er húsið brunnið til grunna.
Til stóð á tímabili að rýma nærliggjandi hús en það reyndist ekki þörf á því vegna þess hve veðrið var stillt. Eldurinn náði því ekki að læsa sig í húsin í nágrenninu.
Enn á eftir að slökkva í glæðum og má búast við því að það taki einhvern tíma.
Samkvæmt upplýsingum Vísis virðist eldurinn hafa komið upp í eldhúsi.
{loadposition nánar fréttir}