Dönsk börn sofa of lítið
Þetta kemur fram á vef DR. Þar er jafnframt haft eftir Søren Berg, svefnsérfræðingi, að lítill svefn geti hamlað börnum, þau eigi erfitt uppdráttar félagslega og gangi verr í skóla.
Á vef DR segir jafnframt að börn á aldrinum 7 til 9 ára þurfi 10 til 11 tíma svefn, 10 til 11 ára gömul börn eigi að sofa 9 til 10 klukkutíma, krakkar á aldrinum 12 til 14 ára verði að sofa í níu tíma og unglingar á aldrinum 15 til 17 ára verði að sofa í 8 til 9 tíma.
Berg segir jafnframt að svefnleysið eigi sér sínar skýringar, það séu til að mynda of mörg raftæki inní herbergjum barna. Foreldrar svefnvana ungviðis ættu að láta það verða sitt fyrsta verk að fjarlægja tölvuna úr herbergi barnsins og leyfa því ekki að sofa með síma sér við hlið.
Elsa Guldager, hjúkrunarfræðingur, segir í samtali við DR, að of lítill svefn sé mjög óhollur fyrir barnið, hann geti valdið því að það verði pirrað og komið í veg fyrir eðlilegan þroska. Svefninn sé börnum lífsnauðsynlegur, hið sama gildi í raun um alla.
Guldager telur að foreldrar ættu að hafa mjög skýrar reglur um svefn og láta þær gilda bæði á virkum dögum og um helgar. Hún mælir til að mynda með að foreldrar komi ró á börnin um klukkutíma fyrir svefninn, smá nudd saki ekki en sjónvarsgláp og tölvuleikjaspil ættu að vera á bannlista, samkvæmt ruv.
{loadposition nánar fréttir}