Bent á slysagildrur í leikskólum
Formaður Samtaka foreldra leikskólabarna í Reykjavík segir það grátlegt þegar slys eigi sér stað eftir að varað hafi verið við hættunni.
Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur gerir árlega úttekt á leikskólum borgarinnar og skilar skýrslu um ástandið. Alvarlegustu athugasemdirnar, þar sem börn eiga til dæmis á hættu að hengja sig eða drukkna, kalla á tafarlausar úrbætur. Þær geta þó látið á sér standa. Þannig má nefna að árið 2009 var helmingur þeirra 848 athugasemda sem Heilbrigðiseftirlitið gerði á leikskólum borgarinnar ítrekanir frá árinu áður. Af þeim voru 136 athugasemdir við hluti sem lagfæra átti strax.
Engin viðurlög virðast vera við því að hunsa kröfur um úrbætur, að sögn Rósu Steingrímsdóttur formanns Barnanna okkar, samtaka foreldra leikskólabarna í Reykjavík. Hún segir að heilbrigðiseftirlitið hafi lagaleg úrræði til að beita borgina dagsektum og jafnvel endurnýja ekki starfsleyfi leikskóla sé ekki orðið við athugasemdum þess. Rósa segist undrast það að þegar jafn alvarlegar athugasemdir koma fram, eins og drukknunarhætta eða hengingarhætta, sé þessum úrræðum ekki beitt.
Rósa segir grátlegt að horfa upp á þegar slys eiga sér stað eftir að varað hefur verið við hættunni. Það komi fram í skýrslum 2010 að slys hafi orðið, og það sé búið að ítreka hættuna jafnvel frá 2007.
{loadposition nánar fréttir}