Barnalán á Akureyri
Þrjú börn fæddust fyrir hádegi í gær og eitt í dag á fæðingardeildinni á Akureyri og þar með voru krílin orðin 26 talsins sem komið hafa þar í heiminn á fyrstu 12 dögum ársins. Þetta þykir óvenjumikið á fæðingardeildinni, sérstaklega í janúarmánuði.
„Janúar er venjulega ekki mjög stór mánuður þannig að hann byrjar mjög vel og skemmtilega, við erum svona í vertíðarvinnu hérna núna,“ segir Ingibjörg Jónsdóttir ljósmóðir. Hún viðurkennir að tíðin minni helst á sauðburð.
Ingibjörg segir að þrátt fyrir mikið álag og veikindi meðal starfsfólks hafi allt gengið mjög vel. Sængurkonur hafi verið afar þolinmóðar við ljósmæður sem hafa svo sannarlega verið á hlaupum, en og allt útlit er fyrir að svo verði út janúar.
Þó svo mikið hafi verið að gera á fæðingardeildinni það sem af er ári er starfsfólkið þó afar sátt við hamaganginn því fljótlega mun helmingi deildarinnar verða lokað í tólf vikur vegna endurnýjunar.
„Það hefur náttúrulega verið svolítið slæmt veður eins og í þessari viku og konur hafa kannski ekki alvg komist heim sem búa út á landi því konur eru að fæða hjá okkur allt frá Skagaströnd og austur á Neskaupsstað en þá fá þær að gista hérna eina nótt í viðbót, verða bara að vera fleiri á hverri stofu,“ segir Ingibjörg.
{loadposition nánar fréttir}