Aron og Emilía vinsælust
Nafnahefðin er að breytast hér á landi, en nöfn sem voru á ljótu-nafnalista árið 1916 eru nú með vinsælustu nöfnum.
Hvað á barnið að heita er spurning sem allir foreldrar þurfa að svara, og getur mótað allt líf barnsins.
Algengasta svarið við þeirri spurningu á síðasta ári var Aron, en 60 sveinbörn fædd 2010 hlutu það nafn. Næst á eftir í vinsældaröðinni hjá foreldrum drengja var Viktor og þar á eftir hið gamalgróna nafn Jón. Tölurnar í svigunum segja okkur hvar nöfnin voru í vinsældaröðinni árið 2009, en þá tróndi Alexander á toppi listans áður en hann féll um nokkur sæti í fyrra. Logi var svo eitt alvinsælasta millinafnið, en hvort tilviljun ein ráði því að mörg vinsælustu nöfnin eigi sér samsvörun í íslenska handboltalandsliðinu skal ósagt látið.
Í stúlknaflokki var Emilía svo vinsælasta nafnið, en þar á eftir biblíunöfnin Sara og Eva. Þar speglast sá mikli viðsnúningur sem orðið hefur í nafnahefðinni á Íslandi, en árið 1916 var Eva á lista Hins íslenska Þjóðvinafélags yfir nafnaskrípi sem þóttu svo álappaleg að vara þyrfti fólk við þeim. Einmitt það.
Viðsnúningurinn sést einnig þegar vinsælustu nöfnin í fyrra eru borin saman við algengustu nöfnin á Íslandi, sem gefa nokkuð góða vísbendingu um strauma síðustu áratuga í nafngiftum.
Þar sjáum við að aðeins tvö af algengustu nöfnunum rötuðu inn á topplista síðasta árs í tilviki drengja, Jón og Sigurður. Í tilviki stúlkna er breytingin ekki jafnaugljós, því fjögur af algengustu kvennöfnum landsins nutu vinsælda á síðasta ári; Guðrún, Anna, Kristín og María.
Burt séð frá því eiga ný nöfn þó enn langt í land með að ryðja þeim gömlu úr vegi, enda hafa algengustu nöfnin verið óbreytt í áraraðir og Jón og Gunna eru enn nöfn langflestra Íslendinga.
{loadposition nánar fréttir}