Færri feður heima
Lægri greiðslur til foreldra í orlofi og efnahagsástandið ráða þar mestu um, segir framkvæmdastjóri Fæðingarorlofssjóðs.
Fyrir efnahagshrunið hafði feðrum sem tóku fæðingarorlof fjölgað jafnt og þétt. Strax eftir hrun mátti sjá breytingu en árið 2009 fór að hægja a orlofstöku feðra og ári síðar að draga úr henni. Nú sýna nýjar tölur frá Fæðingarorlofssjóði að feðrum sem taka fæðingarorlof heldur áfram að fækka á árinu 2011.
Leó Örn Þorleifsson, forstöðumaður Fæðingarorlofssjóðs, segir að fimm prósent færri feður hafi tekið fæðingarorlof árið 2010 miðað við árið 2009. Merki séu um enn frekari fækkun árið 2011.
Leó telur að tvennt geti skýrt þessa fækkun. Annars vegar efnahagshrunið og hins vegar breytingar á reglum Fæðingarorlofssjóðs. Þannig voru hámarksgreiðslur 535 þúsund krónur á mánuði í lok árs 2008. Í upphafi árs 2010 voru þær komnar í 300 þúsund krónur á mánuði.
Það eru ekki aðeins færri feður sem fara í fæðingarorlof heldur taka þeir sér líka skemmra orlof. Feður voru farnir að taka um og yfir hundrað daga að meðaltali í fæðingarorlof. Strax árið 2009 fór að draga úr fjölda orlofsdaga og árið 2010 voru þeir um áttatíu. Í ár eru þeir svo enn færri eða sjötíu og sex.
{loadposition nánar fréttir}