Tugir barna á bið eftir leikskólaplássi á höfuðborgarsvæðinu

Tugir barna á bið eftir leikskólaplássi á höfuðborgarsvæðinu

Börn eru á biðlista eftir leikskólaplássi í nærri öllum sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins. Um 36 bíða í Garðabæ, 23 í Hafnarfirði og 141 barn í Kópavogi. Ekkert barn bíður í Mosfellsbæ en fimm á Seltjarnarnesi. Í Reykjavík er enn verið að vinna að innritun og fjöldi á bið enn óljós.

Þetta kemur fram í svörum bæjar- og borgaryfirvalda til fréttastofu um fjölda barna á bið og aldur við innritun.

Samkvæmt svörum frá Reykjavíkurborg var ekki hægt að fá upplýsingar um meðalaldur við innritun í leikskóla að svo stöddu. Samkvæmt svari er enn verið að innrita börn í sjálfstætt starfandi skóla og leikskóla og því liggur lokatala ekki fyrir. Gert er ráð fyrir því að skýrari mynd liggi fyrir í byrjun næsta mánaðar.

Í Garðabæ eru alls 36 börn á bið eftir leikskólaplássi. Börnin eru á aldrinum 12 mánaða til fimm ára og sóttu öll um pláss á tímabilinu maí til ágúst. Úthlutun leikskólaplássa fer allajafna fram að vori í Garðabæ og samkvæmt svörum bæjarins fengu öll börn sem þá biðu pláss á leikskóla. Yngstu börnin sem eru innrituð í leikskóla í Garðabæ eru tólf mánaða.

Í Mosfellsbæ er meðalaldur innritaðra barna 17 til 18 mánaða og eru yngstu börnin sem eru innrituð í leikskóla í bæjarfélaginu fædd í júlí árið 2023 og því 13 mánaða. Engin börn eru á biðlista eftir leikskólaplássi í Mosfellsbæ og er verið að vinna að umsóknum sem bárust eftir 1. júlí.

Alls eru 23 börn á bið eftir leikskólaplássi í Hafnarfirði. Allt eru það börn sem sótt var um pláss fyrir í sumar. Samkvæmt svörum frá bæjaryfirvöldum er unnið að því að koma þeim að í leikskóla. Yngstu börnin sem fá leikskólapláss í haust í Hafnarfirði eru fædd í lok maí 2023 og verða því fimmtán mánaða þegar þau hefja leikskóladvöl.

Fimm fjórtán mánaða á bið

Á Seltjarnarnesi eru yngstu börnin sem eru innrituð fædd í maí 2023 og því um 15 mánaðar þegar skólastarf hefst. Alls eru fimm börn sem hafa náð 14 mánaða aldri á bið eftir leikskólaplássi í sveitarfélaginu.

Í Kópavogi eru yngstu börnin sem hafa fengið boð um innritun í leikskóla í haust fædd í apríl árið 2023 og verða því um 16 til 17 mánaða þegar þau byrja í leikskóla í haust. Samkvæmt svörum bæjarins eru alls 141 barn á bið eftir plássi en flest eru þau fædd í ágúst árið 2023 eða alls 50 og því tólf mánaða í ágúst. Alls eru svo 30 börn á bið fædd í júlí 2023, 27 börn fædd í júní og svo 34 börn fædd í maí, samkvæmt visir.

oli
Author: oli

Vefstjóri