14 pör eða hjón í Hruna­manna­hreppi eiga von á barni

14 pör eða hjón í Hruna­manna­hreppi eiga von á barni

Sjaldan eða aldrei hefur verið ein mikil uppbygging á Flúðum eins og núna því um 70 íbúðir eru þar í byggingu. Samhliða er mikil fjölgun í sveitarfélaginu en þegar síðast var vitað eiga fjórtán pör á Flúðum og næsta nágrenni von á barni á næstu vikum.

Flúðir tilheyra sveitarfélaginu Hrunamannahreppi en alls staðar í kringum þorpið eru myndarlegar sveitir þar sem bændur og búalið eru að gera góða hluti. Þegar ekið er um Flúðir má víða sjá að það er verið að byggja ný raðhús, parhús og einbýlishús.

Aldís Hafsteinsdóttir er sveitarstjóri Hrunamannahrepps.

„Ætli það sé ekki búið að úthluta núna lóðum fyrir 60 til 70 íbúðir og ekkert lát á og þessi hús er að rísa. Við vorum að malbika nýjustu götuna bara í gær og að öllum líkindum verða auglýstar lóðir við nýja götu í kringum áramót, þannig að við finnum fyrir miklum meðbyr og það er mjög ánægjulegt. Það er auðvitað líka ánægjulegt þegar fólk tekur eftir því og uppgötvar hversu gott það er að fara aðeins nær rótunum og vera úti á landi og uppgötva Ísland með öðrum hætti en fólk gerir kannski almennt,“ segir Aldís.

Aldís segir að allskonar fólk sé að byggja og flytja á Flúðir, það sé svo skemmtilegt.

„Ég var til dæmis núna búin að vera að tala við ungar konur hér í morgun og það er að fjölga hér í árgöngum. Ætli það séu ekki allavega fjórtán börn heyrist mér, sem eru að fæðast hér í hreppnum bara á þessu ári, þannig að það er bæði það að Hrunamenn eru sjálfir að fjölga sér og síðan er að flytja hingað fólk bæði, sem er að minnka við sig húsnæði og fólk, sem getur unnið að heiman,“ segir sveitarstjórinn alsæl með fjölgun íbúa í sveitarfélaginu, samkvæmt visir.

oli
Author: oli

Vefstjóri