Telja núverandi opnunartíma leikskóla borgarinnar lífsnauðsynlega mörgum
Minnihlutinn í Reykjavíkurborg hefur sömuleiðis mótmælt breytingunum. Hildur Björnsdóttir, Eyþór Arnalds og Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, eru meðal þeirra sem látið hafa í sér heyra vegna málsins.
„Við vitum það að fæstir foreldrar ráða sínum vinnutíma eða hafa sveigjanlegan vinnutíma þannig að þetta mun setja mjög margar fjölskyldur í vanda, og ég tala nú ekki um að ferðatími fólks til og frá vinnu hefur verið að lengjast á undanförnum árum,“ sagði Marta í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær.
Um 150 börn í Reykjavík sótt á síðasta korterinu
Skóla- og frístundaráð byggir ákvörðun sína á tillögum stýrihóps um umbætur í leikskólamálum. Í skýrslu hópsins kemur fram að foreldrar ríflega níu hundruð barna séu með dvalarsamning sem lýkur eftir klukkan hálf fimm. Það svarar til 18 prósenta leikskólabarna í Reykjavík. Einungis um helmingur þeirra séu hins vegar almennt sótt á þeim tíma. Átta prósent á bilinu 16:30-16:45 og svo þrjú prósent síðasta korterið til klukkan 17.
Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs, tjáði Mbl.is á þriðjudag að miðað við þessar tölur séu sterkar líkur á að breytingin muni ekki hafa mikil áhrif.
Breytingin, sem á eftir að fara í gegnum borgarráð og borgarstjórn, á að taka gildi þann 1. apríl. Foreldrar í erfiðri stöðu sem þurfa nauðsynlega á þessum hálftíma að halda í lok dags geti sótt um framlengdan aðlögunartíma til 1. ágúst.
Stýrihópinn skipuðu auk Skúla þau Diljá Ámundadóttir og Egill Þór Jónsson en starfsmaður hópsins var Guðlaug Gísladóttir. Með hópnum störfuðu Anna Margrét Ólafsdóttir leikskólastjóri á Nóaborg, Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjóri á Kvistaborg, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir skrifstofustjóri fagskrifstofu leikskóla, Sigríður Sigurjónsdóttir leikskólakennari í Rauðhóli og Valborg Hlín Guðlaugsdóttir leikskólastjóri Langholti.
Vísar hann til reyndra leikskólastjórnenda sem telji það ekki viðkvæmasta foreldrahópinn, til dæmis einstæða foreldra, sem nýti sér síðasta hálftímann. Algengara sé að foreldrar hafi tímann uppi í erminni ef þau skyldu þurfa að nota hann.
Afmarkaðar femíniskar forsendur
Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, á einnig sæti í skóla- og frístundaráði. Hún hefur staðið í ströngu á Twitter að svara fyrir breytinguna. Margir gera athugasemd við það að breytingin á opnunartíma leikskólanna muni á endanum hafa áhrif á starfshlutfall móður mun frekar en föður.
Þar segir hún að berjast þurfi fyrir styttri vinnuviku og sveigjanleika fyrir foreldra en ekki lengri dagvistun.
Hún vísar í rannsókn sem sýni fram á aukna streitu hjá börnum sem dvelji langdvölum á leikskólum. Þá minnir hún á að viðkvæmu foreldahóparnir séu ekki þeir sem nýti sér þennan auka hálftíma í lok dags, eins og ætla mætti.
„Hvað finnst þér um langa viðveru barna á leikskólum og níu tíma vistun þeirra? Hefurðu pælt í femíniska vinklinum varðandi starfsumhverfi starfsmanna í leikskólum? Eða finnst þér bara að atvinnulífið eigi að ganga fyrir á einhverju afmörkuðum femíniskum forsendum?“ spyr Líf einn gagnrýnanda á Twitter.
Telja þjónustuna nauðsynlega
Sóley Tómasdóttir, fyrrverandi forseti borgarstjórnar, er meðal þeirra fimmtán kvenna sem mótmæla fyrirhuguðum breytingum.
„Við getum vel tekið undir nauðsyn þess að létta álagi af leikskólabörnum og starfsfólki leikskóla. Borgin gæti stuðlað að slíku með styttingu vinnuvikunnar, með bættum starfsaðstæðum, hærri launum og minna álagi á starfsfólk leikskólanna. Þessi aðgerð verður þó aðeins til að auka á álag og vanlíðan hjá hópi sem má einfaldlega ekki við því,“ segir í pistli kvennanna.
„Vissulega er það minnihluti foreldra sem er með vistunartíma fyrir börnin sín til klukkan fimm á daginn og enn færri sem nýta hann allan, en fyrir flest þetta fólk er þessi þjónusta nauðsynleg. Og það hefur aldrei talist til raka gegn þjónustu að fá þurfi á henni að halda (Eða hvað, á að leggja niður fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna? Heimahjúkrun?). Í öðru lagi er það álagið. Þó mögulega geti breytingarnar haft jákvæð áhrif á álag á starfsfólk er alls ekki útséð um að áhrifin verði jákvæð á börn. Álagið mun aftur á móti aukast á þá foreldra sem þurfa á þjónustunni að halda, foreldra sem eru í flestum tilfellum undir gríðarlegu álagi fyrir.“
Eigi að teljast til grunnþjónustu
Hópurinn telur níu og hálfs tíma vistunartíma leikskóla á stóru landssvæði eins og Reykjavík teljast til grunnþjónustu.
„Alls konar fólk er í vinnu með viðveruskyldu á ákveðnum tímum, t.d. 8-16. Ef við tökum dæmi um konu sem býr í Grafarvogi og vinnur á Landspítalanum þarf hún að vera komin með barn sitt á leikskólann klukkan 7:30 til að vera mætt í vinnu á tilsettum tíma og ekkert má út af bregða til að hún komist að sækja barn sitt klukkan 16:30. Annað dæmi gæti verið heimili þar sem er barn í fyrstu bekkjum grunnskóla og annað á leikskóla. Grunnskólinn opnar klukkan 8 svo það er í fyrsta lagi þá sem viðkomandi foreldri getur lagt af stað til vinnu og er þá komið í vinnuna (gefið að hún sé í Reykjavík) 15-30 mínútum seinna. Fyrir þetta foreldri þarf leikskólinn að vera opinn til klukkan 17 ætli það að ná átta klukkustunda vinnudegi.“, samkvæmt visir.
{loadposition nánar fréttir}