Söðlaði um og fór að hanna ungbarnafatnað
Ragnhildur Anna Jónsdóttir venti sínu kvæði í kross, hætti í vinnunni og hóf að hanna ungbarnafatnað úr lífrænni bómull undir merkinu Jónsdóttir & co. Varan er vottuð með Fair Trade-merkinu.
„Ég hef unnið við verslunarstörf nánast frá því ég man eftir mér en ákvað að söðla um og skapa eitthvað sjálf. Fyrsta verkefni mitt er ungbarnasamfellur og smekkir úr lífrænni bómull saumaðir og vottaðir með Fair Trade-merkinu,” segir Ragnhildur Anna.
„Mér fannst það mikilvægur punktur þegar ég ákvað að fara af stað með eitthvað sjálf að á endanum nytu allir góðs af,” segir hún.
Ragnhildur segir þetta hafa verið ótrúlega lærdómsríkt og skemmtilegt ferli. „Að velta fyrir sér myndefni, litum, texta og síðast en ekki síst umbúðunum. Ég lagði heilmikið upp úr því að finna skemmtilegt efni til að nota í umbúðirnar og nokkrum samfellunum fylgir gjafapoki úr bleiugasi með sömu áletrun og er á samfellunni. Það er Vinnustofan Ás, sem er verndaður vinnustaður, sem saumar pokana og ég er ótrúlega ánægð með það samstarf.”
Samfellurnar og smekkirnir eru ýmist úr bleiktri eða óbleiktri bómull og hægt er að velja um átta mismunandi mótíf. Heimasíðan jonsdóttir.is er í vinnslu en þar verður hægt að gera sérpantanir auk þess að kaupa samfellur og smekki með þeim mótífum sem þegar eru komin í framleiðslu.
„Ég er líka með Facebook-síðuna Jónsdóttir & co og þar getur fólk séð myndir af vörunni og fylgst með nýjungum,” segir Ragnhildur. Samfellurnar og smekkirnir fást hjá Epal, Minju við Skólavörðustíg og í Safnabúðinni í Þjóðminjasafninu.
Heimildir: vísir