Skólinn er byrjaður en enn vantar kennara

Skólinn er byrjaður en enn vantar kennara

Skólinn er byrjaður en enn vantar kennaraTugi grunnskólakennara vantar enn til starfa. Störfum í skólum fjölgar og hlutfall leiðbeinenda eykst.

Verr gengur en áður að manna kennarastöður í grunnskólum, segir formaður Félags grunnskólakennara. Með aukinni sérhæfingu og flóknari verkefnum þarf fleira fólk og undanfarin ár hefur þeirri þörf meira eða minna verið mætt með ófaglærðu fólki.

Á síðasta skólaári störfuðu um 5.800 við grunnskólakennslu samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Störfunum fjölgar ár frá ári að sögn Mjallar Matthíasdóttur formanns Félags grunnskólakennara. Og því fylgir að sífellt erfiðara er að fá menntaða kennara til starfa. „Tilfinningin er sú að það gangi ekkert sérlega vel. Það er fjöldi umsókna sem berst til undanþágunefndar og það er enn verið að auglýsa eftir kennurum,“ segir Mjöll.

Sú nefnd veitir undanþágur fyrir fólk sem er ráðið til kennslustarfa, án þess að hafa til þess tilskilin réttindi. Þá geta skólastjórnendur sótt um heimild til Menntamálastofnunar til að ráða starfsfólk til eins árs í senn.

Tugir auglýsinga

Á vefnum alfreð.is eru tugir auglýsinga um laus störf grunnskólakennara. Slík störf eru líka oft auglýst á vefsíðum sveitarfélaganna. Til dæmis vantar enn umsjónarkennara á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni og nokkuð er um að auglýst sé eftir sérkennurum og sérgreinakennurum.

Mjöll segir að áður hafi staðan verið mismunandi eftir landshlutum og í sumum sveitarfélögum hafi verið mjög erfitt að fá kennara. „En það er bara svolítið breytt landslag í þessu. Ég held að það vanti bara víða.“

Borgin fundar um stöðuna í dag

Eitt þeirra sveitarfélaga sem enn eru að auglýsa eftir kennurum er stærsta sveitarfélagið, Reykjavíkurborg. Skóla- og frístundaráð fundar vegna þessa síðar í dag. Í Reykjanesbæ vantar líka kennara og þar fengust þær upplýsingar að 30% þeirra sem kenna í grunnskólum þar séu án kennsluréttinda. Það hlutfall hafi hækkað undanfarin ár.

„Skólakerfið hefur verið að þenjast út og það þarf fleiri til að manna stöðugildin í skólunum. Það hafa leiðbeinendur verið að koma inn og fylla inn í þann mönnunarvanda undanfarin ár, því miður,“ segir Mjöll.

Þú segir því miður, er þetta slæm þróun? „Þetta er flókið starf og álagsmikið og það hlýtur að vera vilji allra að það sé menntað fólk sem sinnir þessum störfum, sem hefur til þess sérfræðiþekkingu.“, samkvæmt visir.

oli
Author: oli

Vefstjóri