Má ekki heita Annamaría
Mannanafnanefnd hefur hafnað beiðni um leyfi til að heita Annamaría að eiginnafni. Nefndin hefur hins vegar samþykkt eiginnöfnin Konstantín, Özur, Aðaley og fleiri.
Í úrskurði mannanafnanefndar um eiginnafnið Annamaría segir að til þess að heimilt sé að samþykkja nýtt eiginnafn þurfa öll skilyrði laga um mannanöfn að vera uppfyllt. Skilyrðin eru:
- Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli.
- Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi.
- Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.
- Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.
Ef litið sé á nafnið Annamaría sem samsett nafn myndað úr nöfnunum Anna og María þá reyni á skilyrði númer tvö og þrjú hér að ofan.
Sem samsett nafn fari Annamaría gegn hefðbundnum nafnmyndunarreglum í íslensku. Fyrri liður þess sé nafnið Anna, í aukaföllum Önnu. Ekki sé hefð fyrir því að í samsettum orðum, sem mynduð eru af tveimur nafnorðum að fyrri liður samsetningarinnar beygist heldur aðeins sá síðari.
Nafnið Annamaría (í eignarfalli Önnumaríu) brjóti þannig í bága við íslenskt málkerfi. Annar möguleiki væri að fyrri liður væri óbreyttur í beygingu (sbr. eignarfallsmyndina Annamaríu). Sá möguleiki bryti einnig í bága við íslenskt málkerfi þar sem nefnifallsmyndir veikra kvenkynsorða (s.s. gata, lilja) mynda ekki fyrri lið í samsettum orðum; þar sé notað eignarfall (s.s. götuljós, liljuvöndur).
Eiginnafnið Annamaría fari gegn hefðbundnum nafnmyndunarreglum í íslensku. Þá geti ekki talist í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls að rita tvö sjálfstæð eiginnöfn á borð við Anna og María sem eitt orð. Rithátturinn Annamaría sé ekki í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls og uppfylli þar af leiðandi ekki tilvitnað ákvæði laga um mannanöfn, samkvæmt visir.
Aðrar beiðnir um eiginnöfn sem nefndin úrskurðaði um á fundi sínum í lok síðustu viku voru samþykktar. Samþykkt nöfn eru eftirfarandi:
Aðaley
Konstantín
Özur
Trausta
Hrafnea
Valerí
Þórberg