Skólabörn í Rúanda fá fartölvur
Markmiðið er að vinna sig út úr fátækt með hjálp tækninnar og verða framarlega á sviði upplýsingatækni í framtíðinni.
Í Kagugu grunnskólanum í höfuðborginni Kigali eiga allir 3.500 nemendurnir sínar eigin fartölvur. Það er óvanalegt fyrir skóla næstum hvar sem er, hvað þá í fátæku ríki eins Rúanda. Í öllum skólanum hafa nemendur aðgang að ókeypis interneti sem þeir nota óspart við að fræðast um allt milli himins og jarðar. Eric Hakizimana, nemandi í skólanum, segir að hann sé að læra stærðfræði, ensku, félagsfræði og móðurmál með tölvunni sem hann segir vera gott verkfæri.
Krakkarnir nota tölvurnar til að taka myndir og semja tónlist. Þær þola vel ryk, rafmagnsleysi og eru mjög ódýrarar í framleiðslu . Caroline Umutoniwase, kennari, segir að tölvurnar séu notaðar sem hjálpargagn í kennslu og þær gagnist börnunum við heimavinnu og til að undirbúa verkefni.
Ekki eru þó allir jafn ánægðir með framtakið og finnst peningunum betur varið í aðra hluti, svo sem menntun og þjálfun kennara.
En stjórnvöld eru harðákveðin í að halda þessu til streitu og tala um byltingu. Það hversu móttækileg þjóðin hafi verið fyrir nýrri tækni hafi meðal annars stuðlað að því að hagvöxtur í Rúanda er einn hinn mesti í Afríku. Jafnvel á afskekktum stöðum í landinu er hægt að finna stað sem hægt er að fara á netið.
{loadposition nánar fréttir}