Sex tímar gjaldfrjálsir samkvæmt nýrri gjaldskrá leikskóla

Sex tímar gjaldfrjálsir samkvæmt nýrri gjaldskrá leikskóla

Sex tímar gjaldfrjálsir samkvæmt nýrri gjaldskrá leikskólaNý gjaldskrá leikskóla í Kópavogi var samþykkt á fundi Bæjarráðs fimmtudaginn 6.júlí. Í henni felst að sex tíma dvöl eða skemmri verður gjaldfrjáls, en áfram verður greitt fæðisgjald.

Dvalargjöld umfram sex tíma taka hækkunum sem fara stigvaxandi með auknum dvalartíma. Komið verður til móts við tekjulág heimili með tekjutengdum afslætti.

Foreldrum í Kópavogi gefst kostur á að hafa dvalartíma barna breytilegan eftir vikudögum sem mun auðvelda skipulagningu styttri dvalartíma.

Breytingarnar taka gildi 1. september og hafa foreldrar til 20. ágúst til að óska eftir breyttum dvalartíma barns í leikskólum frá og með september.

Til þess að skýra betur í hverju breytingarnar felast og svara spurningum sem kunna að vakna hefur upplýsingasíða verið opnuð á vef Kópavogsbæjar. Foreldrar/forsjáraðilar barna í leikskólum eru hvattir til að kynna sér efni síðunnar. Bætt verður inn upplýsingum á síðuna eftir þörfum.

Þrettán fulltrúar allra hagaðila sátu í starfshópi sem vann tillögur að breytingum á skipulagi og starfsumhverfi leikskóla í Kópavogi. Vonast er til að breytingarnar stytti dvalartíma barna í leikskólum en tillögur hópsins byggja á þeirri sýn að velferð og vellíðan barna sé best borgið með hæfilega löngum leikskóladegi. Skipulagt leikskólastarf mun einkum fara fram milli 9 og 15 en opnunartími verður óbreyttur frá 7.30 til 16.30.

Meginmarkmið breytinganna er að bæta starfsaðstæður barna og starfsfólks í leikskólum og efla um leið faglegt skólastarf enda leikskólinn fyrsta skólastigið.

Ábendingum og fyrirspurnum sem varða nýja gjaldskrá og breytingar má koma á framfæri á netfangið leikskolatillogur(hja)kopavogur.is

Spurt og svarað um breytingar í leikskólum í Kópavogi, samkvæmt Kópavogur.

oli
Author: oli

Vefstjóri