Lét óveðrið og ófærðina ekki stoppa sig

Lét óveðrið og ófærðina ekki stoppa sig

Hann fæddist í sjúkrabíl sem var í fylgd með snjóruðningstæki og björgunarsveitarbíl á leiðinni frá Húsavík til Akureyrar.

Móður, Guðrúnu Sigríði Geirsdóttur, og barni heilsast vel og foreldrarnir eru í skýjunum. Þau höfðu fylgst vel með veðri og vindum síðustu daga, vitandi að von væri á barni – en þegar allt fór af stað í gærkveldi gátu aðstæðurnar ekki verið verri. Blindbylur. Víkurskarðið kolófært og ekki möguleiki að moka það því tveir stórir bílar sátu þar fastir og lokuðu veginum.

Brugðið var á það ráð að senda snjóruðningstæki eftir gömlu leiðinni sem liggur í gegnum Dalsmynni í Fnjóskadal. Í fylgd með björgunarsveitinni frá Húsavík lagði sjúkrabílinn af stað. „Það var náttúrulega ömurlegt færi sérstaklega í gegnum Dalsmynnið, það var svo blint að við margsinnis stöðvuðum sjúkabílinn því við sáum ekki næstu vegastiku eða vegkant þannig að við urðum að stoppa og bíða þar til við sáum fram fyrir bílinn,“ segir Guðbergur Rafn Ægisson, faðir drengsins.

Drengurinn kom í heiminn klukkan hálftvö en þau voru ekki komin til Akureyrar fyrr en hálf þrjú. Á fæðingardeildinni á Sjúkrahúsi Akureyrar unir fjölskyldan sér nú – en þau fara brátt aftur heim til Húsavíkur og keyra þá Víkurskarðið, sem nú er orðið fært.

{loadposition nánar fréttir}

 

oli
Author: oli

Vefstjóri