Allt of fátt starfsfólk er í grunnskólunum

Allt of fátt starfsfólk er í grunnskólunum

 

Þeim sem sinna kennslu í grunnskólum hefur fækkað um 317 frá árinu 2008. Þar er bæði átt við kennara með réttindi og leiðbeinendur. Þeim síðarnefndu hefur fækkað um 578 á tímabilinu, úr 776 í 198. Réttindakennurum hefur hins vegar fjölgað um 261 og eru þeir nú 95,9 prósent þeirra sem sinna kennslu í grunnskólum.

Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara, segir það háa hlutfall fyrst og fremst skýrast af fækkun réttindalausra leiðbeinanda. Hann segir að fjölga þurfi kennurum og að þeir þurfi rýmri tíma til að sinna þeim verkefnum sem skólinn er að fást við í dag. Á sama tíma og kennurum fækki fjölgi verkefnum.

„Þetta er klárlega komið í óefni. Það hefur komið í ljós í könnunum að kennarar vinna miklu meira en þeir eiga að gera. Þá er það allt of algengt að kennarar upplifi að þeir gætu gert betur og vilji gera betur, en þeim séu ekki skapaðar aðstæður til þess.”

Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, segir þetta vera áhyggjuefni.

„Þetta er auðvitað áhyggjuefni ef við skoðum þetta í samhengi við mörg önnur teikn, eins og að kennarar upplifa mikið álag í starfi og þá eru kjör íslenskra kennara ekkert sérstaklega góð í alþjóðlegum samanburði. Það þarf auðvitað að skoða svona merki og taka þau alvarlega.”

Skipaður hefur verið starfshópur til að meta reynsluna af skóla án aðgreiningar. Ólafur segir mikla þörf á því og vonast til þess að viðræðurnar leiði til niðurstöðu. Ekki verði búið við það ástand sem nú ríki í grunnskólum.

„Maður upplifir það stundum að skólinn sé að verða eins og blaðra sem þú fyllir af vatni. Blaðran þenst út, en það kemur að því að hún springur.”

Katrín segir hins vegar ekki hægt að einblína á stefnuna um skóla án aðgreiningar þegar kemur að auknu álagi, samkvæmt vísir.

„Það er rétt að það er aukið álag, en það snýst ekki bara um þessa stefnu. Það er búinn að vera niðurskurður og kreppa í samfélaginu, meira álag á nemendur og þar af leiðandi á kennara. Það eru því mjög margir þættir sem spila þarna inn í.”

{loadposition nánar fréttir}

 

oli
Author: oli

Vefstjóri