Leikskólastjórar óttast áramótin
Starfsmenn vantar á deildir
Hver dagur er mikið púsluspil fyrir leikskólastjórann á Lyngholti á Reyðarfirði. Tryggja þarf nægt starfsfólk á allar deildir en það vantar fólk í fjórar stöður. Ofan á það bætast veikindi sem aukast vegna álagsins. „Það kemur til með að vanta inn á tvær kannski þrjár deildar einn til tvo starfsmenn. Þannig að við eigum eftir að skoða hvernig það verður græjað. Við erum orðnar allar inni á deild, hvort sem við heitum leikskólastjóri, aðstoðarleikskólastjóri eða sérkennslustjóri, við bara erum hlaupandi. Áskoranirnar eru í því að við fáum ekki starfsfólk; það er stærsta vandamálið,“ segir Lísa Lotta Björnsdóttir, leikskólastjóri á Lyngholti á Reyðarfirði.
Takmarkar fjölda starfsmanna sem tala litla íslensku
Hún spyrst fyrir um atvinnulausa hjá Vinnumálastofnun. Hún svarar fólki sem hringir frá útlöndum og vill fá vinnu án þess að tala íslensku. „Ég eiginlega setti mörkin þegar ég var komin með 12 af 30 starfsmönnum erlenda. En rosalega flottar stelpur ég ætla ekki að taka það af þeim og leikskólakennara margar hverjar en áskorunin var í rauninni að þær væru orðnar þetta margar,“ segir Lísa Lotta.
Leikskólastjórar á öllu Austurlandi skrifuðu nýverið opið bréf og lýstu áhyggjum af áhrifum þessa á málþroska barna. Til að bregðast við er erlendu starfsfólki á Lyngholti boðið íslenskunámskeið í leikskólanum á vinnutíma. Engin opinber viðmið eru til um hve hátt hlutfall starfsfólks má vera án íslenskukunnáttu.
Loka deildum og ná stundum ekki að skapa ró
Það færist í vöxt að loka þurfi deildum og senda börn heim vegna manneklu. Lísa Lotta segir þetta orðið allt of algengt í leikskólum. „Þá er það okkar leikskólastjóranna að meta hvenær við getum tryggt öryggi og hvenær er öruggara að börnin fari heim. Heldur en að vera hérna kannski tvær með 20 börn sem er ekki ásættanlegt ef þau eru bara eins eða tveggja ára. Við náum ekki að skapa ró. Það er líka það sem það snýst um. Og við þurfum bara að hlaupa hraðar. Allar.“
Leikskólakennarar laðast að grunnskólanum
Um áramót taka gildi nýjar reglur um eitt leyfisbréf fyrir leik-, grunn-, og framhaldsskóla. Þá geta menntaðir leikskólakennarar flutt sig yfir á önnur skólastig og starfað þar sem kennarar og reyndar kennara úr grunn- og framhaldsskólum líka flutt sig yfir í leikskóla en minna mun vera um það.
„Við erum pínu hrædd um það að leikskólakennarar eigi eftir að halda áfram að færa sig yfir af leikskólastiginu yfir í grunnskólana. Meðal annars bara vegna þess að þar er vinnutímafyrirkomulagið svolítið öðruvísi heldur en á leikskólanum. Viðvera með börnum er allt önnur á grunnskólastiginu heldur en á leikskólastiginu,“ segir Lísa Lotta.
Til að halda í leikskólakennara þurfi að tryggja þeim fleiri tíma á viku í undirbúning á faglegu starfi. Grunnskólakennarar fái meiri tíma í slíkt. Þar lýkur samfelldri viðveru með nemendum fyrr á daginn. „Þannig að það er í rauninni þetta sem er stóri munurinn eins og það snýr að okkur. Ég veit alveg að leikskólakennarar margir hverjir myndu alveg vilja þiggja líka að geta verið að skipuleggja næsta dag alveg eftir hádegi. Í staðinn fyrir að vera að gera það kannski á hlaupum,“ segir Lísa Lotta.
Upplifir meira álag í leikskóla en fær lægri laun
Betri kjör bjóðast í grunnskóla þar sem kennara geta hækkað laun með því að tak aðsér afleysingakennslu. Guðbjörg Stefánsdóttir hefur verið leiðbeinandi í 18 ár. Þegar hún flutti til Reyðarfjarðar fékk hún vinnu í leikskólanum en vann áður í grunnskóla. „Ég lækkaði í launum við það að koma frá grunnskóla í leikskóla. Ég hef mun meira vinnuálag samt í leikskólanum heldur en í grunnskólanum, ég fékk meiri pásur inn á milli í grunnskólanum. Við værum ekki hér í vinnu ef við værum að vinna hér fyrir launin okkar. Við erum að vinna hérna af því að okkur finnst gaman að vinna hérna,“ segir Guðbjörg, samkvæmt ruv.
{loadposition nánar fréttir}