Leikskólagjöld á Akureyri breytast og fyrstu sex tímarnir gjaldfrjálsir

Leikskólagjöld á Akureyri breytast og fyrstu sex tímarnir gjaldfrjálsir

Leikskólagjöld á Akureyri breytast og fyrstu sex tímarnir gjaldfrjálsirNý gjaldskrá leikskóla á Akureyri tekur gildi um áramót. Samkvæmt henni eiga fyrstu sex klukkustundir leikskóladagsins að vera gjaldfrjálsar.

Samkvæmt nýrri gjaldskrá verða fyrstu sex klukkustundir leikskóladagsins gjaldfrjálsar, en áfram þarf að borga fæði. Vistun til klukkan fjögur á daginn lækkar í verði, auk þess sem gjöld verða tekjutengd. Einstæðir foreldrar, pör í námi, atvinnulausir foreldrar og öryrkjar fá einnig afslátt. Þá geta foreldrar og forráðamenn barna yfir tólf mánaða fengið heimgreiðslu upp á 105 þúsund krónur, nýti þeir sér ekki leikskóla eða dagvistun.

„Það sem við erum að gera okkur vonir um að gerist er að ásókn í að hafa börn í átta tíma, það dragi úr henni. Sem verður þá til þess að auðvelda okkur að koma til móts við styttingu vinnuvikunnar,“ sagði Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar.

Hún segir kostnað flestra foreldra standa í stað eða lækka við breytinguna. Útlit sé fyrir aukinn kostnað þeirra sem vista börnin sín í átta og hálfan tíma og falla ekki undir tekjumörk.

Hugmyndin hefur hlotið gagnrýni

Gagnrýnt hefur verið að ný gjaldskrá nýtist síst lágtekjufólki og fólki með lítið bakland. Auk þess sé hætta á því að konur hverfi í meira mæli aftur inn á heimilin. „Já það er auðvitað eitthvað sem við verðum að fylgjast með og sjá hvernig þetta þróast. Við tekjutengjum gjaldskrána samhliða þessari breytingu. Það er nú einmitt til þess að koma til móts við þann hóp sem hefur lægstar tekjur.“

Halla segir stöðuna metna á hálfs árs fresti og að ákvörðunin verði endurskoðuð ef hún reynist ekki vel, samkvæmt RUV.

oli
Author: oli

Vefstjóri