Hófdrykkja á meðgöngu sögð hafa lítil áhrif
Tæplega 11 þúsund sjö ára börn í Bretlandi voru rannsökuð, en mæður þeirra drukku ýmist hóflega eða ekki neitt á meðgöngunni. Samkvæmt rannsóknarskýrslunni var lítill munur á hópunum tveimur.
„Það er vitað að óhófleg áfengisneysla á meðgöngu hefur mjög skaðleg áhrif, en ólíklegt er að hófdrykkja geri það,“ segir Yvonne Kelly, einn af höfundum skýrslunnar. „Umhverfið sem börn alast upp í hefur mun meiri áhrif.“
Niðurstöðurnar samræmast ráðleggingum breskra yfirvalda til barnshafandi kvenna, en þar eru konur hvattar til að halda áfengisdrykkju á meðgöngu í lágmarki og drekka alls ekki meira en eina til tvær einingar áfengis á viku. Það samsvarar tæplega hálfum lítra bjórs.
Kelly segir þó nauðsynlegt að rannsaka börnin frekar til þess að geta fullyrt að hófdrykkjan hafi ekki áhrif sem koma fram á síðari hluta æskuáranna, samkvæmt vísir.
{loadposition nánar fréttir}