Hart deilt um leikskólamál

Hart deilt um leikskólamál

Á borgarstjórnarfundi í dag sat Oddný Sturludóttir fyrir svörum en hún er borgarfulltrúi Samfylkingar og formaður skóla- og frístundaráðs. Oddný sagði árganga leikskólabarna mjög stóra um þessar mundir; erfitt sé að áætla fjölda þeirra þegar fólk flytji til og frá Reykjavík og loks sé ekki hægt að taka börn inn í laus leikskólapláss pláss nema peningar fylgi – annað væri stefnubreyting. Fulltrúar minnihlutans telja að því hafi ekki verið nógu vel svarað af hverju laus leikskólapláss séu ekki fullnýtt.

 “Nei, það hefur verið mjög erfitt að fá upplýsingar um þessi mál frá meirihlutanum, hvort sem það erum við í borgarstjórn eða fjölmiðlar eða foreldrar,” segir Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. “Mér finnst það einkennilegt að ég, sem kjörinn fulltrúi, skuli ekki vita af ákvörðunum sem þessum. Einhver hefur tekið þessa ákvörðun og þessi einhver á ennþá eftir að koma í ljós.”

Þá fullyrtu þær Oddný og Eva Einarsdóttir, borgarfulltrúi Besta flokksins, að engin þöggun væri innan borgarinnar. Bréf til leikskólastjóra, þar sem þeir eru beðnir að beina fyrirspurnum frá fréttafólki til upplýsingasviðs borgarinnar, sé afar kurteislega orðað.

“Það skiptir ekki öllu mái hvernig hlutirnir eru sagðir,” segir Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi Vinstri Grænna. “Það er vel hægt að vera kurteis en koma samt fyrirmælum mjög skýrt á framfæri.”

Leikskólamál í Reykjavík verða áfram rædd á fundi skóla- og frístundaráðs á morgun.

 

{loadposition nánar fréttir}

 

oli
Author: oli

Vefstjóri