Hafa aldrei notað meiri svefnlyf
Að meðaltali nota um sjö prósent slík lyf daglega. Læknir segir þetta óheillaþróun sem þurfi að stemma stigu við.
Svefnlyfjanotkun Íslendinga hefur aukist stöðugt undanfarin ár og er nú meiri en nokkru sinni fyrr.
Á tímabilinu frá 2007 til 2010 jókst notkunin um tæp ellefu prósent. Á sama tímabili minnkaði notkunin í Danmörku um tæp 25 prósent. Þessa þróun í Danmörku má rekja til þess að þar í landi hófu heilbrigðisyfirvöld átak til að takmarka svefnlyfjanotkun. Hér á landi hefur ekki verið ráðist í neitt slíkt átak.
Notkunin hér á landi jókst áfram frá 2010 til 2011, en í fyrra mældist hún rétt tæplega 67 dagskammtar á hverja 1.000 íbúa á dag. Það má því áætla að tæplega 7 prósent landsmanna taki svefnlyf daglega. Tölur fyrir árið 2011 í Danmörku liggja ekki fyrir, en árið 2010 mældist notkunin rúmir 15 dagskammtar, en hér á landi mældist hún rúmir 66 dagskammtar, eða rúmlega fjórum sinnum meiri.
Sigríður Dóra Magnúsdóttir, yfirlæknir, segir að þetta sé óheillaþróun sem menn vilji reyna að stemma stigu við. Það hafi þó sýnt sig í gegnum árin að það sé erfitt.
Þegar listi yfir mest seldu lyf hér á landi í fyrra er skoðaður kemur í ljós að í öðru sæti er svefnlyfið Imovane, en rúmlega fimm milljónir dagskammta seldust af því í fyrra. Svefnlyf eru lyfseðilsskyld og því segir Sigríður ábyrgð lækna vera mikla. Þeir þurfi meðal annars að kynna fólki kosti og galla svefnlyfja. „Það er kannski þar sem við höfum ekki haft erindi sem erfiði, að fá fólk til þess að sætta sig við að svefnlyf eru ekki hugsuð til langframa heldur á þetta að vera lausn til skamms tíma,“ segir Sigríður.
Hún segir að mikil notkun svefnlyfja geti haft ýmiss konar óæskilegar afleiðingar, meðal annars geti þau orðið vanabindandi. „Það er kannski það sem er ekki fólki nógu vel kunnugt að það myndast mjög fljótt þol við notkun svefnlyfja, þau gera bara gagn í stuttan tíma, en hins vegar færðu fráhvarfseinkenni þegar þú hættir þeim, jafvnvel þó það sé bara um stutta notkun að ræða,“ segir Sigríður, samkvæmt ruv.
{loadposition nánar fréttir}