geta tekid rolo fostur

Geta tekið róló í fóstur

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram tillögu í borgarráði fyrir helgi um að bjóða borgarbúum leikvelli til fósturs. En hvað í ósköpunum þýðir það?

„Hugmyndin gengur semsagt út að íbúar geti tekið leikvelli í nágrenni sínu í hálfgert fóstur þannig að þeir sjái um viðhald og endurbætur á þeim með aðkomu í borgarinnar í formi efniskostnaðar og leiðbeininga,” segir Karl Sigurðsson, borgarfulltrúi Besta flokksins og formaður umhverfisráðs Reykjavíkur.

Karl segir fjölmarga borgarbúa vilja taka til hendinni í sínum hverfum. „Viðbrögðin hafa verið ofboðslega góð. Bæði eftir að við kynntum þetta og áður höfðum við tekið eftir gríðarlega miklum áhuga fólks til að fá að taka til hendinni í sínum hverfum, sérstaklega á leikvöllunum. Þannig að það greinlega áhugi fyrir þessu.”

Karl segir nú unnið að því í stjórnsýslunni að gera hugmyndina að veruleika, útbúa verklagsreglur og annað slíkt. Borgarráð frestaði því að taka afstöðu til tillögu meirihlutans, en Karl segist vona að þetta verði samþykkt í hlutaðeigandi ráðum sem fyrst, og þá verði hægt að hrinda hugmyndinni í framkvæmd. Hann segist telja að verkefnið muni gera mikið fyrir borgina.

„Þetta mun náttúrulega lífga upp á borgina og gera hana skemmtilegri. Börnin okkar eiga ekki að þurfa að venjast að vera í ömurlega, illa hirtum og ljótum leikvöllum. Þau eiga að venjast því að hafa fallegt í kringum sig. Þannig koma þau síðar sjálf til að með að gera fallegt í kringum sig,” segir Karl.

 

{loadposition nánar fréttir}

oli
Author: oli

Vefstjóri