Slysagildrur í nýju hverfi
Við Gerplustræti stendur eitt fjölbýlishús með 24 íbúðum þar sem 15 standa auðar. Húsið var byggt árið 2008 og hafa flestir íbúar búið þar í ár eða lengur. Engin lýsing er fyrir framan húsið og ókláraðir húsgrunnar umkringja svæðið. Einn slíkur stendur í vesturátt, fyrir neðan hringtorg og er um 6 metra djúpur.
„Þetta er lífshættulegt, bæði fyrir börn og fullorðna,” segir Ástríður sem kveðst ítrekað hafa séð fólk stela öllu steini léttara úr húsgrunnunum, sem áður voru fullir af timbri og rörum, en standa nú nær tómir.
„Ég hringdi svo í lögregluna þegar ég sá krakka vera að leika sér ofan á leikskólanum,” segir hún. „En þar sem engin lögregla er í Mosfellsbæ lengur tók það hana 33 mínútur að koma á staðinn.”
Áslaug segist dauðhrædd við að hleypa barnabörnum sínum út einum síns liðs og slysagildrur vera alls staðar. Hún hefur ítrekað biðlað til bæjarins um úrbætur en fær þau viðbrögð að slíkt sé í höndum verktakanna.
Jóhanna Björg Hansen, framkvæmdastjóri umhverfissviðs Mosfellsbæjar, segir bæinn hafa þrýst á Helgafellsbyggingar, verktaka sem standa að framkvæmdunum, að ljúka verkunum. Þeir hafi lofað að ljúka frágangi í sumar.
„Samningar við fyrirtækið eru í uppnámi og það er í raun ekkert hægt að gera af hálfu bæjarins í þessu máli annað en að þrýsta á þá,” segir Jóhanna. „En þetta er ekki eini staðurinn þar sem svona er ástatt – víða er ástandið mun verra.”
Leikskólinn á svæðinu stendur nú auður. Mosfellsbær lét fjarlægja tvö af fimm timburhúsum sem hýstu stofnunina í júlí. Ekki hefur verið gengið frá svæðinu undir húsunum og liggja þar brotin rör og rafmagnsvírar við hliðina á leiktækjum ætluðum börnum. Svæðið er ekki girt af. Frágangur við leikskólann er alfarið í höndum bæjarins og ekkert hefur verið aðhafst fram að þessu.
{loadposition nánar fréttir}