Foreldrar kemba börnum ekki nóg
Þetta segir hjúkrunarfræðingur sem kallar eftir átaki á landsvísu til að hefta útbreiðslu sníkjudýrsins.
Hún er vandfundin höfuðlúsin, enda á við sesamfræ að stærð og einungis einn af hverjum þremur sem smitast finnur fyrir einkennum.
Ef lús kemur upp í skóla er tilkynning send foreldrum og þeirbeðnir um að kemba hár allra í fjölskyldunni. Þetta fyrirkomulag skilar þó ekki alltaf tilsettum árangri.
„Börnin koma kannski ekki með blaðið aftur til baka og sumir jafnvel koma með það til baka, undirskrifað en krakkinn gefur til kynna að það hafi ekki verið kembt. Þetta er náttúrulega slæmt,” segir Ása Atladóttir, hjá Landlækni.
Ása telur mikilvægt að foreldrar bregðist við og brúki kambinn reglulega til að greina lúsina.
„Til dæmis kannski á laugardögum, hafa kannski lúsardag. Bara að finna eitthvað svona skemmtilegt system á þetta,” segir Ása.
Börn eru oft hársár og það getur verið erfitt að fá þau til að samþykkja kembingu, en þá er gott að setja hárnæringu í blautt hárið áður en kamburinn er brúkaður.
Ásu þykir kominn tími á átak um allt land hvað lúsina varðar og bendir á danska lúsasérfræðinginn Kim Larsen, þó ekki söngvarann, í sömu andrá.
„Hann hefur lýst áhuga á að skaffa kamba og svo myndum við reyna að bindast samtökum með skólahjúkrunarfræðingum og kennurum og gera átak. En það eru náttúrulega fyrst og fremst foreldrarnir í landinu sem koma til með að verða aðal samstarfsaðilarnir. Kannski förum við í þetta áður en langt um líður. Það væri óskandi,” segir Ása, samkvæmt vísir.
{loadposition nánar fréttir}