Einhverfur drengur hefur ekki sótt skóla mánuðum saman

Einhverfur drengur hefur ekki sótt skóla mánuðum saman

Algengt er að foreldrar einhverfra barna endi í kulnun og falli út af vinnumarkaði segir móðir einhverfs drengs. Drengurinn hefur ekki sótt skóla mánuðum saman. Hún segir engin úrræði að fá í skólakerfinu.

Móðir tíu ára einhverfs drengs segir hann ekki fá stuðning við hæfi í skólanum, engin úrræði séu í boði. Drengurinn hefur ekki sótt skóla í marga mánuði. Hún segir algengt að foreldar einhverfra barna fari í kulnun og detti út af vinnumarkaði vegna álags.

„Núna er strákurinn okkar sem er í fimmta bekk ekki í skóla vegna þess að honum býðst ekki, í raun og veru, hann má vera í skólann, hann er velkominn en á þeim forsendum að hann sé heilan skóladag, inni í almennum bekk, inni í námsveri klukkutíma af deginum og með stuðningsaðila sem er ófagmenntaður.“ segir Sara Rós Kristinsdóttir, móðir einhverfs drengs.

Hún segir þetta skipulag sem til boða standi einfaldlega ekki ganga upp, drengurinn ráði ekki við álagið, missi stjórn í aðstæðum, strjúki úr skólanum og foreldrarnir hafi þurft að fylgja honum. Skólakerfið bjóði einfaldlega ekki upp á stuðning við hæfi.

Sara Rós Kristinsdóttir var í viðtali vegna stöðu drengsins hennar sem er einhverfur og fær ekki næga aðstoð í skólakerfinu.

Engar lausnir í sjónmáli

Sótt hefur verið um fyrir drenginn í sérstökum einhverfudeildum tvö ár í röð. „Og hann kemst ekki inn þrátt fyrir töluverða þörf. Það stendur einmitt í neituninni. Þrátt fyrir töluverða þörf.“

Fjölskyldan hefur reynt að leita lausna víðar. Sótt var um í Arnarskóla, athugað með Waldorf-skóla og fjölda skóla utan hverfis, án árangurs.

„Það er lítill skóli annar í hverfinu sem segir auðvitað er hann velkominn en þar er ekki starfsmanneskja. Það þyrfti fyrst að finna hana og það er ekkert námsver eða neitt. Þetta er í raun og veru ekki lausn þar og það var alveg sagt beint við okkur. En, í raun og veru, af því að það er búið að bjóða okkur það og hann má koma í hinn skólann á þessum forsendum, þá hefur verið sagt við okkur að við séum að skorast undan skólaskyldu. Ég hef alveg svarað því á móti að mér finnst vera verið að brjóta á hans réttindum,“ segir Sara Rós.

Algengt að foreldrar fari í kulnun

Sara Rós segir að álagið sem hafi fylgt því að drengurinn þeirra hafi ekki verið í skóla í bráðum hálft ár hafa verið mikið. Foreldrarnir hafa þurft að vera heima með drengnum.

„Hann getur ekki verið einn heima. Ég er orðin bara lasin af álagi sko. Ég er búin að fara í gegnum endurhæfingu og svona.“

Hún segir að þeim foreldrunum hafi báðum hrakað heilsufarslega. „Það er bara staðreynd. Það er sko, af því að nú hef ég verið mjög opin með þessa umræðu og hef talað við mjög marga aðra foreldra einhverfra barna og þetta er mjög algeng saga, að foreldrar einhverfra barna að séu komin í kulnun, komin af vinnumarkaði. Langvarandi álag ýtir bara undir sjúkdóma og allt þetta.“

Hún segir samfélagið fara á mis við verðmæti í gegnum þetta. „Það er bara mjög algengt að fólk sé að fara af vinnumarkaðinum og endi á örorku með tilheyrandi tekjuskerðingu. Þetta er svo mikill missir fyrir samfélagið,“ þetta sé fólk sem hafi ýmislegt fram að færa.

„Nú er ég búin að tala við manneskju sem er sérkennaramenntuð en getur ekki verið á vinnumarkaði vegna þess að hún er með einhverfa stelpu sem er ekki að fá þá þjónustu sem hún þarf, þannig að hún er komin í kulnun. Ég er búin að tala við barnasálfræðing. Ég hef talað við fullt af fólki. Það er bara gríðarlegur missir fyrir samfélagið að þetta fólk sé ekki í vinnu,“ segir Sara Rós, samkvæmt RUV.

oli
Author: oli

Vefstjóri