Foreldrar ósáttir við tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar
Börn sem ljúka leikskóla í nokkrum hverfum í Reykjavík eiga að fara á frístundaheimili í byrjun júní. Foreldrar eru ósáttir, bæði við verkefnið og stuttan fyrirvara á því.
Foreldrar barna sem ljúka leikskóla í Grafarvogi, Norðlingaholti og hluta Breiðholts í vor eru ósáttir við tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar sem felst í að börnin færist yfir á frístundaheimili í byrjun júní. Foreldrar segja verkefnið kynnt með of litlum fyrirvara og ákveðið án samráðs.
Tilraunaverkefnið hefur yfirskriftina Fyrr á frístundaheimili. Verkefnið var framkvæmt þannig í fyrra að nemendur fóru í sumarfrístund eftir sumarleyfi leikskóla. Í ár stendur til að útvíkka verkefnið, bæta við fleiri starfsstöðvum og byrja fyrr. Strax í byrjun júní.
Rökstuðningur er að bæði auðveldi þetta aðlögun nemenda að grunnskólanum og hagræði sé af því að útskrifa fyrr úr leikskólanum og geta þannig hafið aðlögun nýrra barna.
Lítill fyrirvari og ekkert samráð
Foreldrar eru ósáttir við þann fyrirvara sem hafi verið. Þórdís Björg Björgvinsdóttir er móðir barns í leikskólanum Lyngheimum í Grafarvogi.
„Það kom fram í bréfi sem við fáum 4. apríl að þetta hafi verið tekið fyrir á fundi Skóla- og frístundaráðs 12. febrúar. Í þessu e-maili biðjast þeir afsökunar á því að þetta hafi borist svona seint af því að þeir hafi átt í erfiðleikum með að koma póstinum út. Ég veit ekki alveg hversu margar vikur það tekur að senda tölvupóst en það tók ansi margar í þessu tilfelli.“
Foreldraráðum leikskóla var þó kynnt verkefnið nokkru fyrr. „Þeir sem ég hef rætt við sem eru í foreldraráðum leikskóla, þeir upplifa það þannig að það hafi ekki verið hlustað á þeirra athugasemdir áður en þetta var sent á alla foreldra,“ segir Þórdís.
Dýrara en leikskóli og annar opnunartími
Þórdís segir að þeir foreldrar sem hún hafi talað við hefðu ekki amast við sama fyrirkomulagi og var á tilraunaverkefninu í fyrra, það er að börnin færðust yfir á frístundaheimili að sumarfríi loknu. Það fyrirkomulag sem nú sé fyrirhugað hafi mun meiri áhrif á skipulag heimilishalds.
„Það sem fólk er ósátt við er að bæði er opnunartíminn styttri. Þetta er töluvert dýrara, það er ekki innifalinn matur í þessu verði þannig að við þurfum að útbúa nesti fyrir þrjár máltíðir á dag. Líka, þetta samræmist ekki alls staðar sumarfríum leikskólanna, þannig að ef þú átt yngra barn sem er enn þá á leikskólanum þá geturðu kannski lent í því að þurfa að brúa 6 vikur en ekki 4 vikur í sumarfríi.“
Þórdís segir að í samhengi við þetta sé sérstaklega óheppilegt hversu seint foreldrum var tilkynnt um fyrirkomulagið, þegar fólk hafi jafnvel verið búið að skipuleggja frítöku sumarsins út frá sumarfríi leikskóla. „Þetta getur bara sett allt heimilislífið úr skorðum fyrir sumarið.“
Stór hluti foreldra hefur skrifað undir til að mótmæla
Þórdís útbjó undirskriftarlista í gær þar sem þessu er mótmælt, undir hann hafa 250 foreldrar skrifað. „Ef við gerum ráð fyrir 20 börnum á hverjum leikskóla þá eru þetta svona 340 börn þannig að 250 undirskriftir er ansi gott. En ég er ekki með nákvæma tölu yfir hvað þetta eru mörg börn.“
Þórdís segir foreldra almennt mjög ósátta. „Margir foreldrar eru búnir að senda póst á Helga [Grímsson, sviðsstjóra Skóla og frístundasviðs Reykjavíkurborgar], og líka Skóla- og frístundaráð og það er búið að senda á Umboðsmann barna varðandi það að það sé verið að mismuna börnum í borginni. Svo veit ég til þess að það voru einhverjir foreldrar tilbúnir með kvörtun til Umboðsmanns Alþingis ef þeir fengju engin svör. Þannig að foreldrum er heitt í hamsi yfir þessu.“
Samkvæmt upplýsingum frá Skóla og frístundasviði Reykjavíkurborgar er reiknað með því að verkefnið verði keyrt. Verið sé að fara yfir ábendingar foreldra og kanna hvort og með hvaða hætti verði hægt að koma til móts við þær, samkvæmt RUV.