Ég er að reyna að beina reiðinni í rétta átt

Ég er að reyna að beina reiðinni í rétta átt

Ég er að reyna að beina reiðinni í rétta átt

Send heim af bráðamóttöku eftir stutta skoðun

Á laugardegi í október fór dóttir Höllu Maríu Þorsteinsdóttur að kvarta undan slæmum magaverk. Á sunnudegi var hún orðin mjög kvalin og versnaði mikið þegar leið á kvöldið. Halla María segir hana hvorki hafa viljað liggja í rúmi né sitja í sófa vegna verkja.

„Hún vill bara vera á gólfinu með ælufötu í fanginu. Svo ætla ég að biðja hana að koma til mín og knúsa mig en hún getur ekki staðið og vill bara sitja og er öll í keng. Þá fer okkur að gruna að þetta sé kannski ekki bara magapest.“

Hjúkrunarfræðingur á Læknavaktinni vísaði fjölskyldunni á Bráðamóttöku barna. Eftir stutta skoðun var talið líklegast að hún væri með hægðatregðu. Foreldrarnir tjáðu þó læknum að þeim þætti það ólíkleg skýring. Þeim leið eins og ekki væri hlustað á þau.

„Svo erum við bara send heim og hún er eiginlega nákvæmlega eins áfram næstu tvo daga.“

– Höfðuð þið áður séð hana svona illa á sig komna?

„Nei.“

Beðið svo lengi að drep var komið í annan eggjastokkinn

Dóttir Höllu Maríu var þessa tvo daga svo kvalin að hún hvorki borðaði né svaf, og var hálfrænulaus af sársauka og svefnleysi. Að morgni þriðjudags leituðu foreldrarnir aftur til læknis, vissir um að eitthvað alvarlegt væri að hrjá hana. Eftir örstutta skoðun á heilsugæslunni voru þau send aftur á bráðamóttöku. Þar kom í ljós að annar eggjastokkurinn hefði snúið upp á sig og stúlkan var strax send í aðgerð.

„Þegar hún kemst í aðgerð þá er það búið að vera svoleiðis svo lengi að það er komið drep í hann og ekkert hægt að gera. Það þurfti sem sagt að fjarlæga eggjastokkinn. Mér skilst að þetta sé eitthvað þar sem tíminn skipti máli. Því fyrr því betra. Það eru náttúrulega meiri líkur á að hafi þetta verið gert fyrr hefði verið hægt að bjarga eggjastokknum og hún hefði ekki þurft að vera sárkvalin tvo daga í viðbót.“

Ótal spurningar en engin svör

Halla María segir spítalann ekki hafa gefið skýringar á því að dóttir hennar hafi verið send heim sárkvalin án frekari rannsókna eftir fyrstu skoðun. Þá hafi þau ekki fengið neinar upplýsingar um hvort aðgerðin hafi einhverjar afleiðingar í för með sér fyrir hana. Þau hafi útskrifast með ótal spurningar en engin svör.

„Þarna erum við að tala um líffæri sem skiptir máli og hefur áhrif en mér fannst enginn taka þessu eins og þetta hefði verið neitt alvarlegt.“

Þegar starfsfólk er útkeyrt gerast mistök

Halla María segir ekki við starfsfólk spítalans að sakast en segir atvikið endurspegla hve slæm staðan sé í heilbrigðiskerfinu.

„Það er erfitt að vera ekki reiður. Því meira sem ég hugsa um þetta því reiðari verð ég en ég er bara að reyna að beina reiðinni í rétta átt. Maður veit það alveg sjálfur að þegar maður er undir álagi í vinnunni og þú ert þreyttur og útkeyrður og búinn að vinna alltof mikið, að það er þá sem að maður fer að gera mistök. Ég er ekki sár út í starfsfólk spítalans heldur í raun batteríið þar í kring sem ætti að vera búið að gripa inn í .“

Foreldrar stúlkunnar ætla að tilkynna málið til Landlæknis. „Kannski bara til að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur til að það þurfi ekki annað barn að lenda í þessu,“ bætir Halla María við að lokum.

Landspítalinn vildi ekki veita viðtal vegna málsins þegar eftir því var leitað., samkvæmt ruv.

 

{loadposition nánar fréttir}

 

oli
Author: oli

Vefstjóri