Bon Jovi á Borginni
Hann dvelur í turnsvítunni á Hótel Borg ásamt fjölskyldu sinni, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.
Bon Jovi kom til landsins um helgina, en hann gekkst nýlega undir aðgerð á hné og hyggst dvelja á landinu í viku á meðan hann jafnar sig. Hann snæddi hádegisverð á veitingastaðnum Silfri á Hótel Borg í hádeginu í gær og vakti talsverða athygli matargesta. Heimildir Fréttablaðsins herma að eftir að spurðist út að Bon Jovi hafi borðað á Silfri hafi fjölmargir pantað borð. Veitingastaðurinn verður því þéttar setinn í kvöld og á morgun en ella, en fólk vonast eflaust til að geta barið goðið augum.
Á fimmta tímanum í gær sást Jon Bon Jovi rölta út af íslenska barnum í fylgd með óþekktum manni. Hann var að sögn viðstaddra „klæddur eins og Íslendingur” í gallabuxum, gráum bol og með flennistór sólgleraugu.
Jon Bon Jovi er 49 ára gamall og einn allra vinsælasti söngvari Bandaríkjanna. Hann er kvæntur æskuástinni, Dorotheu Hurley og eiga þau saman fjögur börn, þau Stephanie Rose, Jesse James Louis, Jacob Hurley og Romeo Jon. Hljómsveit hans, Bon Jovi var stofnuð árið 1983 og hefur selt meira en 130 milljón plötur um allan heim. Hljómsveitin er þekktust fyrir slagarana It’s My Life og Livin’ on a Prayer og You Give Love a Bad Name, en þau hafa hljómað á ófáum íslensku pöbbunum í flutningi misgóðra trúbadora.