Þunglyndir feður
Einn af hverjum tíu nýbökuðum feðrum þjáist mögulega af fæðingarþunglyndi.
Þetta eru niðurstöður athugana sem unnar voru af rannsóknarteymi Læknaháskólans Austur-Virginíu í Bandaríkjunum.
Þó að hlutfallið sé lægra en hjá nýbökuðum mæðrum komu niðurstöðurnar á óvart eins og fram kom á fréttavef BBC síðasta þriðjudag.
Þær sýndu að feður eru yfirleitt hamingjusamastir fyrstu vikurnar eftir fæðingu barns en þunglyndi geri vart við sig eftir þrjá til sex mánuði.
Eins virtust feður líklegri til að verða þunglyndir ef móðirin þjáðist af fæðingarþunglyndi.
Einnig segir í fréttinni að þunglyndi feðra sé síður til umræðu og þeir fái sjaldnar aðstoð vegna þess.
Minni svefn, breyttur lífsstíll, meiri ábyrgð og breytingar á sambandi parsins sjálfs séu þó allt þættir sem hafa áhrif á bæði móður og föður.
Rannsóknin náði til rúmlega 28 þúsund foreldra í sextán löndum.
Heimildir: Fréttablaðið