Bjuggu til smáforrit sem efla þroska barna

Bjuggu til smáforrit sem efla þroska barna

Hagnaðarvonin er á stærri markaði erlendis.

Nú er hægt að nálgast á íslensku þroskaleiki fyrir ungabörn sem spila má í snjallsímum og á netinu. Leikina má spila á vefsíðunni www.soffia.net, eða sækja sem „app” (smáforrit) í Android-snjallsíma á smáforritavefnum Google Play. Aðgangur að leikjunum og smáforritunum er án endurgjalds.

Soffía Gísladóttir, annar aðstandenda vefsins, segist hafa farið að stað með verkefnið eftir að hún eignaðist stúlku fyrir þremur árum. „Þegar hún var svona níu mánaða til eins árs þá vorum við að leita að afþreyingu á Youtube og fundum ekkert íslenskt efni,” segir hún. Þegar stúlkan var síðar farin að söngla stafrófsþuluna upp á enska vísu sá Soffía að hún yrði að taka til sinna ráða. „Og fyrst ekkert efni var til á íslensku, þá bjó ég það bara til.”

Þegar Soffía fór ekki alls fyrir löngu aftur í fæðingarorlof langaði hana til að halda vinnunni áfram og búa til fleiri leiki. „Og ég auglýsti eftir samstarfi frá einhverjum sem hugsanlega væri líka í fæðingarorlofi.” Þá hafði Helga Einarsdóttir samband, sem líkt og Soffía hafði lokið námi frá Margmiðlunarskólanum.

„Hún var til í að koma í þetta með mér og síðan þá erum við búin að búa til tölustafa-app og setja upp vefsíðu.”

Fyrsta kastið segir Soffía að um hálfgert hugsjónastarf að ræða við að búa til stafrænt þroskaefni fyrir ungabörn. Í framhaldinu standi hins vegar til að hafa af verkefninu tekjur og í því augnamiði hafi þær stöllur stofnað fyrirtækið Lean Laundry.

„Við erum svona að skoða möguleikana til framtíðar þegar fleiri öpp verða til,” segir hún, en af smáforritunum eru til bæði íslenskar og enskar útgáfur. „Og við myndum kannski frekar selja ensku öppin, eða gætum mögulega selt aðgang að flóknari útfærslum á leikjum, en haft aðrar opnar.”

Núna vinna Soffía og Helga að því að búa til flóknari stafaleiki og aðrar tegundir þroskaleikja þar sem börn geta lært á form, árstíðir og hvað eina skemmtilegt. Þá segir Soffía unnið að því að útbúa útgáfu af smáforritunum sem þegar eru til, sem hlaða megi í Iphone-síma úr Apple Store á netinu, samkvæmt vísir.

{loadposition nánar fréttir}

 

oli
Author: oli

Vefstjóri