Aðlögun á leikskóla
Þegar barn byrjar í leikskóla er mikilvægt að það gerist smám saman svo barnið verði öruggt í nýju umhverfi og njóti sín sem best.
Í aðlögun kynnist barnið starfsfólki, hinum börnunum og húsakynnum leikskólans.
Á aðlögunartímanum eykst öryggi barnsins smám saman og það verður tilbúnara til að vera með í leikskólahópnum.
Aðlögun er ekki einungis aðlögun barns, heldur einnig tími fyrir foreldra og starfsfólk að kynnast.
Með góðum aðlögunartíma aukast tengslin milli foreldra og starfsfólks.
Hornsteinn er lagður að öryggi og vellíðan barnsins og samstarfi heimilis og skólans.
Aðlögun er höfð stutt fyrsta daginn og lengd svo frá degi til dags til þess að barnið fái gott tækifæri til að meðtaka breyttar aðstæður.
Einnig er það nauðsynlegt til að draga úr þreytu og spennu.
Aðlögun er alltaf einstaklingsbundin og getur tekið mislangan tíma.
Foreldrar fylgja börnum sínum í aðlögun sem skipulögð er í samstarfi við deildarstjóra og starfsfólk.
Foreldrar þurfa að ætla sér u.þ.b. vikutíma í aðlögun barnsins inni á leikskólanum.
Ágætt er að gera ráð fyrir að heildaraðlögun barnanna geti tekið allt að 6-8 vikur.
Venjan er að hver deild taki tvö börn á viku í aðlögun.
Aðlögun tveggja ára barna er að lágmarki 7 dagar.
Dæmi um aðlögun yngstu barnanna:
Dagur 1:
Barn og foreldri koma í heimsókn kl. 10 eða 10:30 og dvelja saman á deildinni í eina klukkustund.
Dagur 2:
Barn og foreldri koma í heimsókn kl. 10 og eru fram að hádegismat.
Dagur 3:
Barn og foreldri mæta kl. 8:30 og borða morgunmat og eru með í samverustund.
Foreldri hjálpar barninu sínu að klæða sig út.
Ef barn er ánægt getur foreldri farið frá í stutta stund en lögð er áhersla á að foreldri láti barnið vita og kveðji.
Foreldri er komið aftur fyrir kl. 11.
Dagur 4:
Ef allt gengur vel er sami háttur hafður á og á degi þrjú.
Foreldri kemur aftur fyrir kl.11:30 og er með barninu sínu í matmálstíma.
Dagur 5:
Nú er tekið mið af líðan barns.
Ef allt hefur gengið vel má skilja barn eftir strax kl. 8:30 og fram yfir hádegismat.
Alltaf verður þó að vera hægt að ná í foreldri í síma.
Dagur 6 og 7:
Barn dvelur frá umsömdum mætingartíma fram yfir hádegismat ef allt hefur gengið að óskum.
Hvíld: Þegar aðlögun hefur varið í 7 daga og allt gengið að óskum þá getur barn farið í hvíld.
Æskilegt er að sækja barn strax eftir hvíldina fyrsta daginn og einnig er gott að hafa í huga að hafa daginn ekki of langan fyrir barnið fyrstu dagana ef foreldrar hafa möguleika á.
Þegar kemur að því að barn færist á milli deilda sjá starfsmenn um þá aðlögun.
Hún er í flestum tilfellum styttri, því þá þekkja börnin leikskólann og kannast við börn og starfsfólk á öðrum deildum.
Markmiðið er hins vegar alltaf það sama:
Að barn verði öruggt í nýju umhverfi þannig að það fái notið sín til fulls.
Heimildir: Smáralundur, Hafnarfirði